154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:14]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa skemmtilegu umræðu sem er að byrja hérna. Hún verður sjálfsagt bara fín og það eru margir á mælendaskrá þannig að það verða örugglega mörg góð sjónarmið sem hér koma fram. Við auðvitað búum við aðra stöðu heldur en Evrópusambandsríkin sem, eins og kemur ágætlega fram í þessari góðu skýrslu sem er lögð hérna fram, hafa búið við forgang ESB-reglna síðan árið 1964. Hér þarf alla vega að innleiða reglurnar og fullveldið er þar af leiðandi tryggt þó að það sé auðvitað ekki ljóst hvað myndi gerast ef við neituðum að innleiða reglurnar með einhverjum hætti hér á Alþingi. Það hefur stundum verið kallað kjarnorkusprengjuákvæðið. Ég er nú ekki lögfræðingur en svona í anda þessarar breiðu umræðu sem verið er að kalla eftir hérna þá langar mig til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um afstöðu hans til, hvað á maður að segja, dómaframkvæmdar í kringum þessi mál síðustu 30 árin, því að samningurinn er nú orðinn svo gamall, og hver sé skoðun hæstv. ráðherra á athugasemdum ESA við það hvernig þetta hefur verið framkvæmt.