154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má kannski segja að frumvarpið sem lá hér fyrir þinginu í fyrra sé svarið við þessari spurningu, þ.e. að í ljósi dómaframkvæmdar sem í auknum mæli hefur vísað til þess að það sé ekkert svigrúm samkvæmt stjórnarskrá til þess að veita EES-reglunum aukinn forgang yfir t.d. yngri lagasetningu þá þurfi að setja sérstaka sjálfstæða túlkunarreglu í lög eins og hugmyndin var með frumvarpinu hér fyrir bráðum ári síðan. Í skýrslunni er rakin saga dómaframkvæmdar og það er erfitt að horfa fram hjá því að dómstólar telja sér af stjórnarskrá þröngur stakkur sniðinn. Þannig að sú leið sem hér hefur verið farin með frumvarpi sem lagt var fyrir þingið (Forseti hringir.) er undirliggjandi í umræðu um þessa skýrslu og ég vonast til að nefndin geti komið með sjónarmið inn í þá umræðu sem gagnist við að leggja lokahönd á frumvarp að nýju.