133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

skýrsla um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945--1991.

[10:53]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. málshefjanda um að skýrsla sú sem nú er til umræðu er vandað og vel unnið verk sem hugsanlega getur orðið okkur fordæmi við úrlausn ýmissa annarra mála.

Síðasta vor urðu háværar umræður í þjóðfélaginu eftir umfjöllun um sagnfræðilega rannsókn á hlerunum á dögum kalda stríðsins og ýmsir létu að venju stór orð falla um símhleranir í pólitískum tilgangi. Var látið að því liggja að stjórnmálamenn og einstakir ráðamenn hefðu látið hlera pólitíska andstæðinga sína og hefðu jafnvel haft á sínum snærum sérstaka trúnaðarmenn hjá Pósti og síma sem hefðu haft aðgang að tæknibúnaði stofnunarinnar.

Í ljósi þessarar umræðu samþykkti Alþingi þingsályktun 3. júní sl. þar sem ríkisstjórninni var falið að skipa nefnd til þess að annast skoðun gagna sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi á árunum 1945–1991, í vörslu opinberra aðila og ákveða frjálsan aðgang fræðimanna að þeim. Með ályktun þessari var sú pólitíska stefna mörkuð að þessar upplýsingar skyldu gerðar fræðimönnum aðgengilegar, og þeirri nefnd sem skipuð var 22. júní sl. undir forustu Páls Hreinssonar, lagaprófessors og formanns Persónuverndar, falið að gera tillögur um hvernig staðið skyldi að því. Hefur nefndin nú skilað þeirri skýrslu sem hér er til umræðu sem ég tel, eins og ég áður sagði, mjög áhugaverða og vel unna. Sérstaklega finnast mér athuganir nefndarinnar sem lýst er í 2. kafla skýrslunnar merkilegar en þar er með skýrum og hnitmiðuðum hætti gerð grein fyrir því hvernig staðið var að símhlerunum. Annars vegar er þar um að ræða sex tilvik sem rakin eru í skýrslunni og leyfð voru á grundvelli dómsúrskurðar vegna öryggishagsmuna á tímabilinu 1949–1968 og hins vegar þau tilfelli sem átt hafa sér stað eftir 1968 og varða rannsóknir í sakamálum, einkum fíkniefnamálum.

Ég tel rétt að undirstrika að þær hleranir sem leyfðar voru vegna öryggishagsmuna eða innra öryggis ríkisins áttu sér stað á tímum sem ungt fólk í dag á erfitt með að skilja. Andrúmsloftið og tíðarandinn var allur annar en nú. Miðað við þær heimildir sem fyrir liggja verður ekki annað séð en að tilefni þeirra hlerana sem áttu sér stað á árunum 1949–1968 hafi eins og menn litu á það á þeim tíma byggst á upplýsingum sem lögregla taldi trúverðugar og skylt að bregðast við eins og t.d. í tengslum við ráðherrafund NATO 1968.

Við skulum ekki heldur gleyma því að Íslendingar báru ábyrgð á þeim fyrirsvarsmönnum erlendra ríkja og stofnana sem hingað til lands komu á þeim tíma sem hér um ræðir. Þá liggur fyrir og er óumdeilt að símhleranir voru ekki heimilaðar nema samkvæmt dómsúrskurði.

Ég vil enn og aftur árétta að menn verða að meta þessi mál í ljósi þeirra atburða sem átt höfðu sér stað á kaldastríðsárunum í Evrópu og víðar. Það er ekki aðeins eðlilegt að líta á hlutina með þessum hætti í dag heldur einnig sanngjarnt gagnvart því fólki sem á þessum tíma vann störf sín af trúmennsku og heiðarleika.

Ég vil jafnframt undirstrika það sem fram kemur í skýrslunni að það verður að teljast hafið yfir allan vafa að lögreglumenn gátu ekki á eigin spýtur, þ.e. án atbeina starfsmanna Pósts og síma, stundað símhleranir. Þá kemur það skýrt fram að verklag við framkvæmd þessara símhlerana var í föstum skorðum og með þeim hætti að óhugsandi er að þær hafi getað átt sér stað í Landssímahúsinu án vitneskju yfirmanna. Þannig fóru dómsúrskurðir til póst- og símamálastjóra sem áritaði þá persónulega og fól tilteknum starfsmönnum sínum að sjá um tengingar til lögreglunnar. Ber öllum heimildarmönnum nefndarinnar saman um þetta. Þá kemur mér ekki annað í hug en að ætla að sterk fagvitund meðal símamanna hafi einkennt störf þeirra á þessum tíma eins og endranær og að þar hafi fagmennska verið höfð að leiðarljósi í einu og öllu.

Í skýrslu nefndarinnar er að finna gott yfirlit yfir þau gögn sem eru og kunna að vera til og varða öryggismál íslenska ríkisins. Í tillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir því að stofnuð verði deild við Þjóðskjalasafn Íslands sem nefnd hefur verið öryggismáladeild eða kaldastríðssafn. Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja hér þessar tillögur nefndarinnar í einstökum atriðum en geri ráð fyrir að hæstv. menntamálaráðherra muni gera grein fyrir þeim í því frumvarpi sem ætlunin er að leggja fram á grundvelli tillagna nefndarinnar von bráðar.