133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:26]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki rétt að ekki sé gert ráð fyrir jarðgöngum í áætluninni á höfuðborgarsvæðinu. Á þriðja tímabili áætlunarinnar er sérstök fjárveiting þar sem gert er ráð fyrir að jarðgöng komi í Öskjuhlíð. Með sama hætti er gert ráð fyrir þeim möguleika, ef hagkvæmt reynist, að jarðgöng verði á Sundabraut. Sundabrautin er eitt allra stærsta verkefnið í þessari áætlun þannig að það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að það sé þannig. Fyrir nú utan það, fyrir þá hv. þingmenn sem hafa tekið upp reiknivélina sína, er það svo, og það ættu þingmenn að heyra, að í þessari áætlun gengur hæsta hlutfallið, ef skipt er eftir kjördæmum, til höfuðborgarsvæðisins af heildarfjárveitingu til einstakra kjördæma. Það er m.a. vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Sundabraut og fyrirhugaðra jarðganga í Öskjuhlíð.