133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

rannsókn á bankakostnaði og samkeppnishindrunum.

[13:29]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þrjár viðamiklar skýrslur um banka- og lánamarkaðinn hér á landi og samanburð við hin Norðurlöndin kalla á nauðsyn þess að fram fari rannsókn á háum bankakostnaði og aðgangs- og samkeppnishindrunum á bankamarkaði. Okrið og græðgin í bankakerfinu er yfirgengilegt og hefur enn einu sinni birst þjóðinni í gífurlega háum þjónustugjöldum og vöxtum sem á síðasta ári námu 223 milljörðum króna og höfðu tvöfaldast frá árinu á undan.

Þetta er hvorki meira né minna en 80% af tekjum íslenska ríkisins á síðasta ári. Bankarnir hafa kverkatak á lántakendum og reyra þá í fjötra með því að setja þeim skilyrði um að vera í alls konar viðskiptum við þá til að fá hagstæð lán og ef viðkomandi ætlar að losa sig út úr viðskiptunum og greiða upp lánin eru þau sérstaklega skattlögð með háu uppgreiðslugjaldi.

Frá því að einkavæðing bankanna var innleidd árið 2003, þ.e. á fjórum árum, hafa þjónustutekjur bankanna hækkað um tæp 600%, og vaxtatekjur um 435%. Hagnaður bankanna hefur aukist úr rúmum 11 milljörðum í 165 milljarða, þ.e. um 1.416% frá einkavæðingunni. Full ástæða er til að láta líka fara fram rannsókn á sölu ríkisbankanna sem nánast voru gefnir bankakóngunum í krafti helmingaskiptareglu stjórnarflokkanna, sannarlega er um að ræða einkavinavæðingu, enda urðu nokkrir einkavinir stjórnarflokkanna milljarðamæringar af öllu saman. Og hvað græddu svo neytendur á þessu?

Vaxtaokrið er slíkt að vaxtamunur hefur aldrei verið hærri en eftir einkavæðinguna, um 13%, algengir vextir eru 17%, þ.e. 10% hærra en í nágrannalöndunum, og dráttarvextir hér hafa hækkað úr 17% í 25% meðan þeir eru t.d. 10% annars staðar á Norðurlöndunum.

Bankakostnaður, ýmis kostnaður, hefur frá einkavæðingunni vaxið um allt að 250% frá árinu 2002 og það í 18% verðbólgu. Kostnaður við hverja debetkortafærslu hefur aukist um 58% á þessum tíma, og greinilegt er þegar ýmis bankakostnaður er borinn saman milli bankanna að um augljósa samstillingu á verðlagningu er að ræða, ekki síst þegar kemur að kostnaði við lánveitingar.

Í því sambandi verður að skoða greiðslukerfi bankanna og hvernig þeir nýta sameiginlegt tölvukerfi gegnum Reiknistofu bankanna og hlýtur það að vakna upp hvort sameiginleg starfræksla bankanna á henni sé ekki brot á samkeppnislögum og hvort að með þessu fyrirkomulagi þrífist ákveðinn samráðsvettvangur bankanna. Þarna koma forsvarsmenn bankanna allir að sama borði sem hlýtur að auðvelda þeim samstillingu og samráð um vexti og bankakostnað.

Samkeppniseftirlitið kallar á að þetta sé skoðað, en bankarnir hreyfa sig ekki í að breyta þessu. Ég spyr því ráðherrann hvort ekki sé ástæða til að setja lög til að brjóta upp sameiginlegt eignarhald bankanna á greiðslumiðlunarkerfinu, greiðslukortafyrirtækjum og notkun á sameiginlegu tölvukerfi gegnum Reiknistofu bankanna og að Reiknistofan verði færð undir Seðlabanka.

Full ástæða er líka til, í tengslum við þetta, að skoða hvort þeir misnoti markaðsráðandi stöðu sína í ljósi 11. gr. samkeppnislaga og hvort sameiginleg markaðsráðandi staða þeirra og ýmiss konar krosseignatengsl í skyldum og óskyldum rekstri brjóti ekki í bága við samkeppnislög.

Samkeppniseftirlitið hefur kallað eftir aðgerðum til að draga úr samþjöppun á bankamarkaði og minnka kostnað neytenda, m.a. niðurfellingu stimpilgjalda, afnámi uppgreiðslugjalda á lánum, bankarnir hætti að þvinga neytendur með skilyrtri þjónustu og að brotið verði upp sameiginlegt greiðslukerfi bankanna.

Ef ráðherra ætlar að hunsa þessar óskir Samkeppniseftirlits þegar fyrir liggur að neytendur eru hreinlega blóðmjólkaðir af bönkunum er ábyrgð ráðherrans mikil. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Telur hann ástæðu til að beina því til samkeppnisyfirvalda að fram fari rannsókn á háum bankakostnaði og samkeppnishindrunum á bankamarkaði og hvort ástæða sé til að setja skorður við bankaokrinu? Rannsaka ætti einnig hvort samráð eða samstilling eigi sér stað milli bankanna um vexti og þjónustugjöld. Líka þarf að rannsaka samkeppnishindranir með tilliti til þess hvort sameiginleg markaðsráðandi staða bankanna brjóti í bága við samkeppnislög. Jafnframt spyr ég hvort ráðherra sé reiðubúinn að beita sér fyrir lögum sem brjóti upp sameiginlegt eignarhald bankanna á greiðslukortafyrirtækjum og greiðslukerfi bankanna, t.d. með því að Reiknistofa bankanna verði alfarið færð undir Seðlabanka. Einnig spyr ég hvort ráðherra sé tilbúinn að beita sér fyrir afnámi stimpilgjalda og lækkun vanefndaálags vegna dráttarvaxta og að beina því til bankanna að fella niður eða draga úr uppgreiðslugjaldi til að auka virka samkeppni á bankamarkaði og draga úr kostnaði neytenda við bankakerfið.