135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[18:22]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Bara í sambandi við vatnið má ég þá minna á að sá varnarsigur sem vannst í því máli vannst eftir mjög harða baráttu hér á þingi. Frumvarpið var miklu verra þegar það kom í sinni upprunalegu mynd. Það var stöðvað hér, ef ég man rétt, í tvígang og loksins tókst þó að ná því fram að naumasta meirihlutaeignarhald á vatnsveitunum var þarna tryggt.

Af hverju ætli menn hafi t.d. verið áhyggjufullir af vatnsveitunum þó svo að enginn kunni að hafa haft áhuga á því að koma þarna inn? Það var m.a. vegna þess að sporin hræddu frá Bretlandi þar sem menn höfðu verið í æfingum að hætti Thatcher að einkavæða vatnsveitur og járnbrautarteina með skelfilegum árangri. Þar sneri þetta þannig að einkaaðilinn komst upp með að draga mikinn arð út úr starfseminni, hélt ekki við kerfunum. Þetta fór allt að mígleka, járnbrautirnar fóru út af og það var allt í veseni. Svo urðu menn að koma til baka og fara að setja peninga inn í hið einkavædda kerfi af því að þetta gekk ekki upp.

Ég er alveg sammála hæstv. iðnaðarráðherra að því leyti til, og það skapar mér engin vandamál meðan eignarhaldið er alfarið opinbert, að tekjumörkin séu þá höfð það rúm að tryggt sé að þessu sé vel við haldið og endurnýjað og vel byggt upp — það er mikilvægt í raforkutilvikinu þannig að afhendingaröryggið sé fullnægjandi og að sjálfsögðu í hinu tilvikinu líka. Það er m.a. af þeim ástæðum sem mér er svo annt um að Landsnet verði sjálfstætt fyrirtæki alfarið í eigu ríkisins eða opinberra aðila, af því að þannig held ég að það sé best komist hjá og sneitt hjá öllum deilum um að að því marki sem það fær kannski rýmkuð tekjumörk er það til þess að byggja kerfið upp, og það er engin hætta á því að einkaaðili sé þar á bak við og ætli sér að ná í 1/3 af gróðanum.

Ég hef miklar efasemdir um að það sé yfir höfuð vit í því að opna þessa leið fyrir einkaþátttöku (Forseti hringir.) þó ekki sé nema að 1/3 hluta.