138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held einmitt að hugtakið gætni eigi við í allri fiskveiðistjórn eins og hún er framkvæmd í dag. Það er ekki neitt sem ég held að þurfi að brýna frekar, hvorki núverandi stjórnvöld né þau sem verið hafa fram að þessu.

Það er annað atriði sem mig langar líka að gera að umtalsefni. Hv. þingmaður segir í nefndaráliti sínu og ræðu að það frumvarp sem núna liggur fyrir sé í fyrsta lagi ógnun við stöðugleika. Ég skil nú ekki alveg hvaða stöðugleika þingmaðurinn á við, hann mætti rökstyðja það betur. Síðan segir hann að það ýti undir óábyrgar veiðar. Þarna fæ ég hreinlega ekki skilið hvað þingmaðurinn á við. Í þessu frumvarpi er lögð til aukin veiðiskylda. Það er verið að leggja til aukna vinnsluskyldu og aukna línuívilnun. Þannig gæti ég áfram talið, með öðrum orðum eru lagðar til breytingar sem fela í sér mun ábyrgari umgengni við auðlind sjávar en verið hefur. Þetta eru hreinar og klárar lagfæringar á þeirri fiskveiðistjórn sem við búum við í dag.

Ég kem hingað, frú forseti, fyrst og fremst til að vekja athygli á þessu.

Varðandi stöðugleikann er ég tilbúin að ræða það síðar. Mér gefst ekki ráðrúm til þess í stuttum andmælatíma en mér þætti vænt um að heyra samt þingmanninn rökstyðja nánar hvað það er sem hann á við.