138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nokkurn veginn sama hvaða skoðun menn hafa á Hafrannsóknastofnun, vísindamönnunum eða fiskveiðiráðgjöfinni. Ég held að fæstir mundu láta sér detta í hug að setja það bókstaflega inn í löggjöfina að úthlutað skuli allt að 80% umfram veiðiráðgjöf í einstakri tegund. Þetta, virðulegi forseti, er ekki gætni í fiskveiðistjórn. Þetta er óábyrg fiskveiðistjórn. Það er það sem mun vekja athygli og þetta er það sem fiskútflytjendur eru að vara við þegar þeir senda okkur í nefndinni bréf og tala með þeim hætti sem ég hef gert að umtalsefni. Þetta ýtir undir óábyrgar veiðar.

Veiðiskylda hefur ekkert með ábyrgar eða óábyrgar veiðar að gera. Veiðiskylda er ákveðin aðferð við að tryggja að þeir sem fá veiðiheimildirnar nýti þær sjálfir en framselji þær ekki eða taki þátt í leigumiðlun eða sölu með einhverjum hætti. Út á það gengur veiðiskyldan.

Varðandi vinnsluskylduna hef ég þegar gert grein fyrir því að það er hægt að ná þeim markmiðum með allt öðrum og eðlilegri hætti en hér er verið að gera. Hér er verið að setja lög um að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti ákveðið það hvernig menn eigi að veiða, hvað menn eigi að veiða mikið og vinna mikið af makríl í tilteknar pakkningar, hvað menn eigi að taka mikið af loðnunni í hrognavinnslu, í heilfrystingu, í bræðslu, hvernig menn eiga að taka á síldinni. Þetta nær auðvitað engri átt. Þetta er afturhvarf, ekki ár aftur í tímann heldur áratugi. Við sjáum nú þegar af reynslunni að útgerðum, fiskvinnslu, starfsfólki og stjórnendum er fullvel treystandi til að reyna að hámarka afraksturinn af auðlindinni og gera það með ábyrgum hætti. Það hefur sýnt sig. Reynslan sýndi það í loðnunni, síldinni, kolmunnanum og er að byrja að sýna það í makrílnum, en við erum þar með óheppilega fiskveiðistjórn (Forseti hringir.) sem ýtir undir sóun sem nemur mörgum milljörðum króna. Því þarf að breyta, en ekki að setja þetta kjánaákvæði inn í lögin.