141. löggjafarþing — 72. fundur,  28. jan. 2013.

rannsókn á heilsu og líðan Íslendinga árið 2012.

388. mál
[16:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (U):

Virðulegi frú forseti. Sú spurning sem ég er með var lögð fram í byrjun nóvember á síðastliðnu ári en hefur ekki komist á dagskrá fyrr. Hún lýtur að rannsókn á heilsu og líðan Íslendinga, spurningalista sem sendur var út á vegum landlæknisembættisins. Margar spurningarnar þar vekja mikla forvitni og það er sérstakt að fletta þeim lista. Athyglisverðast er þó að eftir er að búið er að fara í gegnum hinar ólíklegustu spurningar er spurt í lokin hvaða stjórnmálaflokk svarandinn kaus síðast og viðkomandi er líka boðið að vera áfram á spurningavagninum til að vita hvernig þetta breytist síðar meir.

Spurningarnar eru margar og ólíkar og eru í 123 köflum. Sem dæmi um spurningar sem þarna eru lagðar fram fyrir fólk, með leyfi forseta, er þessi:

„Hefur sálfræðingur greint hjá þér einhverja eftirfarandi sjúkdóma eða einkenni?“

Þá kemur upptalning á svarmöguleikum: Áfengis- eða fíkniefnavandi, langvinnur kvíði, áfallastreita, þunglyndi, eða aðrar geðsveiflur.

Einnig er spurt að því hversu oft maður hafi drukkið á síðustu 12 mánuðum og svarmöguleikarnir eru til dæmis daglega eða næstum daglega, þrisvar til fjórum sinnum í viku, einu sinni til tvisvar í viku, sjö til ellefu sinnum í viku á síðustu 12 mánuðum, o.s.f.rv.

Áfram er spurt um áfengishegðan manna, en í 66. spurningu er spurt hversu auðvelt það hafi verið að pirra mann í síðastliðinni viku og möguleikarnir eru:

a) Það var auðvelt að pirra mig eða ergja.

b) Ég fékk reiðiköst sem ég gat ekki stjórnað.

c) Mig langaði að brjóta eða mölva hluti.

d) Ég öskraði eða henti hlutum.

e) Ég lenti í rifrildi.

d) Mig langaði til að slá eða skaða einhvern.

Svo er spurt, eftir öll reiðiköstin: Ertu framsóknarmaður eða sjálfstæðismaður eða styðurðu Hreyfinguna eða Vinstri græna eða jafnvel Samfylkinguna?

Svo er spurt um útlit:

Er ég ánægður með útlit mitt eins og það er?

Finnst mér sjálfum ég aðlaðandi eða segir einhver við mig að ég sé aðlaðandi?

Er ég ánægður eða óánægður með líkamsbyggingu mína, eða finnst öðrum eitthvað að líkamsbyggingu minni?

Svona er áfram spurt, frú forseti. Þetta eru bráðkímnar spurningar, en ég spyr: Er þetta eitthvað sem á að leggja fyrir almenning til að svara? Ég spyr hæstv. ráðherra: Gaf hann leyfi (Forseti hringir.) sitt fyrir þessum spurningum? Hafði Persónuvernd gefið leyfi fyrir þeim? Hafði siðfræðiráð (Forseti hringir.) Læknafélags Íslands gefið leyfi fyrir þeim eða Siðfræðistofnun Háskóla Íslands?

Frú forseti. Þetta eru fyndnar spurningar, en að spyrja síðan endilega um það hvaða stjórnmálaflokki viðkomandi tilheyrir eftir að hafa spurt hvort hann hafi orðið pirraður eða reiður — það finnst mér (Forseti hringir.) við það að vera of langt gengið.