143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst þetta ágætar fréttir og í sjálfu sér eðlilegt að við förum í gegnum málið í þinginu en á endanum, áður en við tökum afdrifaríkar ákvarðanir, hlýtur það að vera þannig ef þjóðin kallar svona sterkt og ríkt eftir því að við hlustum. Mér finnst það mjög mikilvægt, ekki bara fyrir þetta mál heldur til framtíðar og rjúfum ekki þær miklu breytingar sem hafa orðið til góða í samfélaginu eftir hrunið þar sem fólk hefur sýnt því miklu meiri áhuga en áður að vera þátttakendur í ákvarðanatöku í samfélaginu. Mér finnst það mjög jákvætt og mun gera allt sem ég get til að það rofni ekki.

Það er líka mjög mikilvægt að fólk hafi það í huga þegar um þingsályktun er að ræða að ekki er hægt að skjóta henni til forseta Íslands og biðja hann að skrifa ekki undir. Núna erum við að tala um mál sem er algjörlega samspil á milli þings og þjóðar. Það er enginn forseti þarna á milli til að varpa ábyrgð á.

Þetta verða allir að hafa í huga þegar þeir fjalla um málið. Það er oft þannig, út af því hvað þetta eru flókin og skrýtin störf sem oft eiga sér stað á Alþingi og mörgum sem eru fyrir utan hús óskiljanleg, að við verðum að muna að þetta er algjörlega samspil á milli þings og þjóðar. Forseti Íslands kemur þarna hvergi nærri, nema kannski á kaffihúsum með öðrum þingmönnum, það veit ég ekkert um, miðað við ýmsar kjaftasögur sem eru í gangi um ýmsa sem eru að hittast, en það er önnur saga.