143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:12]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar í fyrsta lagi að staldra við umræðuna um fullveldið. Hann kom aðeins að þeim sjónarmiðum sem hafa verið uppi að því er varðar framsal fullveldis eða stöðu okkar gagnvart EES-samningnum. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvaða sjónarmið hann telji koma til álita að því er varðar fullveldisspurninguna þegar ESB-aðild er annars vegar. Hvaða álitamál eru þar uppi?

Fullveldisspurningin er býsna stór en hún hefur kannski ekki verið mjög áberandi akkúrat í þeirri umræðu sem hefur verið uppi. Mig langar til að spyrja þingmanninn um þetta.

Hins vegar langar mig að biðja hann aðeins að fara með okkur í þingsalnum inn í einhverja framtíð þar sem Ísland væri aðildarríki að Evrópusambandinu. Hvert væri þá raunverulegt hlutverk eða raunveruleg staða Íslands í því að hafa áhrif á sameiginlega löggjöf Evrópusambandsins? Hvernig fer þetta fram ef hann dregur upp slíka mynd? Hvað eru margir fulltrúar fyrir Ísland og hvernig sitja þeir við borð? Eru þeir eitthvert þing þar sem menn skiptast á skoðunum og er Ísland með sterka rödd þar? Hvernig sér þingmaðurinn þetta fyrir sér og hvernig yrði þetta í raun? Erum við að tala um raunverulega aðkomu Íslands að löggjöf og grundvelli Evrópusambandsins að samþykktum samningi eða hver yrði þessi veruleiki sem hv. þingmaður telur svo eftirsóknarverðan?