143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:41]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna um þetta málefni. Mig langar að velta upp nokkrum athugasemdum og spurningum í tilefni af henni.

Eins og kunnugt er hefur Björt framtíð lýst því yfir að það sé mikilvægt að ljúka þessum viðræðum við Evrópusambandið og að þjóðin fái tækifæri til að taka afstöðu til aðildar. Eins og ég hef skilið stefnu hreyfingarinnar — hv. þingmaður má gjarnan skýra hana betur — telur Björt framtíð að þar sé framtíðarhagsmunum Íslands best borgið.

Segjum sem svo að hér næðist einhver efnisleg sátt um ákvarðanir um framtíðina í þessum málum, hvort ljúka skuli viðræðum, hvort halda skuli af stað aftur inn í Evrópusambandið og hvort greiða eigi atkvæði um niðurstöðu samninga, og henni lyktaði þannig að þjóðin hafnaði þessari aðild, þjóðin teldi hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins eða hreinlega vildi ekki taka þátt í þessu samstarfi. Það eru ýmsar ástæður sem þar kunna að vera að baki, hv. þingmaður er mér örugglega sammála um að þetta snýst ekki bara um landbúnað og sjávarútveg, þetta snýst um miklu fleiri þætti samstarfs og þá spyr ég: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér valkostina hvað varðar Ísland og umheiminn? Ég held að það sé mikilvægt fyrir alla stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka að reyna að kortleggja það dálítið. Ýmsar leiðir eru uppi. Ég tilheyri flokki sem hefur sagt að við eigum að standa utan Evrópusambandsins en hins vegar að það sé mikilvægt að styrkja samskipti við Norðurlöndin og önnur Evrópuríki. Hvaða áhyggjur hefur þingmaðurinn og hvaða möguleika sér hv. þingmaður ef þetta færi svona?