144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

hjúkrunarheimili og þjónusta við aldraða.

[11:32]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Já, umræðan er þörf. Ég tek undir með hv. þm. Halldóru Mogensen, að menn velti fyrir sér valfrelsi einstaklingsins þegar kemur að þessu verkefni sem og mörgum öðrum, valfrelsi þess sem eldist og veikist, með hvaða hætti hann eða hún óskar eftir þjónustu og hvar hann óskar eftir henni. Sú tilhneiging að stofnanavæða alla hluti, alla þætti mannlegs lífs, hlýtur að mega fara í endurskoðun. Það hlýtur að mega skoða hvort það sé á þessum tímamótum, þegar við tölum um mikla vöntun rýma fyrir aðila sem fullorðnast og veikjast, spurning um að ræða meiri samþættingu félagsþjónustu sveitarfélaga og heimahjúkrun. Þá leyfi ég mér að orða það, hæstv. heilbrigðisráðherra, að heilusugæslan fari heim í hérað til að hægt sé að auðvelda þá samþættingu þar sem nærþjónustan er nær borgurunum. Heimamenn eru oft betur til þess fallnir að meta hvar þjónustan er brýnust og hvernig ber að veita hana eða inna af hendi.

Mig langar líka í þessari umræðu, virðulegur forseti, að ræða það að hér er um einstaklinga að ræðir, fólk með mismunandi þarfir og mismunandi þörf fyrir þjónustu. Við getum ekki horft upp á að það þurfi að setja upp stofnun þar sem ákveðið sé fyrir fram með hvaða hætti þjónustan eigi að vera vegna þess að það eru einstaklingarnir sem koma inn sem kalla á ólíka þjónustu eftir því hvernig þeir eru staddir heilsufarslega og félagslega. Þess vegna langar mig að við ræðum þetta út frá öðrum formerkjum en stofnanavæðingu og ég verð að segja að ég hef aldrei haft ofurtrú á að ríkið gæti gert hlutina betur en einstaklingarnir sjálfir.