144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

hjúkrunarheimili og þjónusta við aldraða.

[11:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hún er á margan hátt mjög góð. Ég þakka sömuleiðis þann skilning sem þingmenn sem hafa tekið þátt í þessari umræðu hafa sýnt málaflokknum. Það eru margvíslegar áskoranir í þessum efnum. Eitt af því sem ég vil hafa orð á í seinni ræðu minni er það sem snýr að þjónustu og réttindum fólks. Við erum með þá stöðu uppi núna að Sjúkratryggingar Íslands hafa það verkefni með höndum frá 1. janúar sl. samkvæmt lögum að vinna að þjónustusamningum við öldrunarstofnanir. Það verk er í undirbúningi. Það á að ganga út á að semja um réttindi fólks inni á heimilum. Hingað til er það alveg rétt sem komið hefur fram í umræðunni hjá nokkrum þingmönnum að þetta hefur verið of stofnanamiðað, að stofnanir líti svo á að þær eigi þær fjárveitingar í hendi sem Alþingi ákvarðar á fjárlögum hvers árs, þær eigi á þessu ári 27 milljarða en það séu ekki réttindi einstaklinga sem verið er að setja niður. Við þurfum að skýra þennan þátt.

Varðandi heimahjúkrun er afar áríðandi að við getum eflt samþættingu hennar og félagslegrar heimaþjónustu. Ég segi fullum fetum að þar eigum við að geta náð miklu meiri samlegð og ég er með þá umræðu í undirbúningi í ráðuneytinu að efna til samráðs við sveitarfélög um þátt heilsugæslunnar og félagslegrar heimaþjónustu.

Þegar spurt er um einstök verkefni hér, hvort þau komist til verka fyrir lok þessa kjörtímabils, ætla ég að á þessu ári munum við hefja undirbúning að framkvæmdaáætlun næstu að minnsta kosti fimm ára og það verði kynnt þegar þar að kemur. Ég vil ekki taka afstöðu til einstakra verkþátta eða verkefna eins og hér var kallað eftir heldur kemur það í ljós von bráðar hvaða verkefni verða sett af stað.