146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Gunnar Ingiberg Guðmundsson kom inn á margt í ræðu sinni enda eðlilegt þar sem margt er undir þegar við ræðum fjármálaáætlun. Mig langar að halda aðeins áfram þar sem frá var horfið úr síðara andsvari þar sem var verið að ræða um rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar, þar sem kom fram í máli hv. þingmanns að það sé stefnan að fjölga störfum í þekkingargreinum en á sama tíma sé aðhaldskrafa á málefnasviðinu. Ég hef áhyggjur af því hvernig við eigum að geta þetta til framtíðar því að á sama tíma er verið að setja aukna aðhaldskröfu þegar kemur að menntamálunum. Ég vil biðja hv. þingmann aðeins að sjá þetta vegna þess að hann kom líka inn á menntamálin í ræðu sinni, hvort þarna sé ekki ákveðin mótsögn, að ætla að hafa þá stefnu að fjölga störfum í þekkingargreinum en á sama tíma (Forseti hringir.) að sníða þrengri stakk þegar kemur að menntamálum þjóðarinnar.