146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:14]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, að sjálfsögðu sé ég tækifæri í því að fjölga störfum í sjávarútvegi. Sá sem hér stendur hefur talað fast fyrir því að við þurfum að auka strandveiðar. Ég sé ekki launakostnað í útgerð sem kostnað per se. Það er ekki sami kostnaður og olía eða eitthvað slíkt. Þar á bak við er fjölskylda. Og þegar fjölskylda er á bak við þarf hún væntanlega að borða mat þannig að sá peningur fer út í þjóðfélagið en blæðir ekki út í gegnum olíufélög og þess háttar. Svo er það líka að með slíkri útgerð, smábátaútgerð, kemur allur fiskur í land. Allar hliðarafurðirnar sem fara nú í sjóinn þegar við erum á frystitogurunum er hægt að vinna. Þar höfum við raunar komist að því að þær eru verðmætari en flökin sjálf. Ég sé því mikil tækifæri í uppbyggingu á sjávarútvegi en ég sé þau ekki í núverandi kerfi.