146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:56]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 við seinni umræðu. Þar sem ég hafði ekki tækifæri til að koma að fyrri umræðunni finnst mér mikilvægt að koma tilteknum sjónarmiðum á framfæri hér. Það er margt í þessari áætlun sem þarft er að ræða enda margir þingmenn sem taka þátt í umræðunni og er það hið besta mál. Ég mun hins vegar aðeins ná að koma inn á örfá atriði.

Ég hef töluvert velt fyrir mér hvað skipti máli við þessa umfjöllun nú þegar við erum að fara í gegnum heildarferlið samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál og skoða hvernig vinnan geti orðið sem árangursríkust. Auðvitað skiptir heildarsýnin miklu máli en ekki síður að við horfum á stefnumótunina fyrir einstaka málaflokka og að hún sé í samræmi við vilja Alþingis eins og hann hefur birst í áður samþykktum áætlununum og stefnum. Að verið sé að vinna eftir þeim framkvæmdaáætlunum sem þegar hafa verið samþykktar, oft og tíðum í þverpólitískri sátt. Þá finnst mér líka skipta mjög miklu máli að fyrir liggi eftir hvaða reglum fjárveitingar verða síðan innan málaflokka, hvaða reiknireglur gilda og hvernig forsendur fyrir útdeilingu fjármuna eru fundnar. Það getur til dæmis átt við um áætlaðan nemendafjölda í framhaldsskólum, sem mér hefur reynst erfitt að átta mig á hverju byggir. Eins skiptir miklu máli að grunnþjónusta á hverju sviði sé skilgreind þannig að við vitum hvar forgangurinn liggur þegar áætlunin um fjárheimildir málaflokka er gerð. Það getur til dæmis átt við um heilbrigðisþjónustuna, hver grunnþjónustan er í heilsugæslu og sjúkraflutningum, svo eitthvað sé nefnt. Í því ljósi er mjög mikilvægt að fyrir liggi áætlanir á fleiri sviðum en við höfum núna. Vil ég þá nefna heilbrigðisáætlun sem þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt mikla áherslu á á þessu þingi.

Það er bæði lykilatriði fyrir umsagnaraðila og þingmenn sjálfa þegar þeir fara yfir áætlunina eins og hún liggur fyrir. Ég hef heyrt það á umræðunni, bæði í ræðustól og í umræðum við þingmenn sem komið hafa að vinnunni í nefndum, að menn telja umsagnir utanaðkomandi aðila misjafnlega gagnlegar. Ég held að það sé alltaf hollt fyrir okkur þingmenn að hafa í huga mismunandi hlutverk umsagnaraðilanna. Það geta ekki allir haft heildarsýn. Það er hlutverk tiltekinna aðila og okkar hér að horfa á heildarmyndina. Þannig er t.d. mjög mikilvægt að landshlutasamtök sveitarfélaga horfi á myndina eins og hún snýr að íbúum tiltekins landshluta. Að landshlutasamtök hafi það hlutverk að yfirfara hvort þjónusta á þeim sviðum sem þar skipta meginmáli sé í samræmi við áætlanir, hvort jafnræðis sé gætt, hvort verkefni sem áætlað er að fara í rúmist innan áætlunar og þannig mætti áfram telja.

Ég held líka að hin langa umræða sem við erum í núna sé mikilvæg þrátt fyrir að sumir álíti að hún sé orðin fulllöng. Þannig er það nú oft hér, sumum finnst langt það sem öðrum finnst of stutt. Þannig tengist vinnsla annarra mála betur fjármálavinnunni á Alþingi en tíðkast hefur í gegnum tíðina. Á næstu árum mætti svo móta fastari ramma utan um umræðuna og vinnuna en ég held að áfram verði mjög mikilvægt að horfa til þess að sem flestir þingmenn geti tekið þátt í umræðunni og að ráðherrar geti verið virkir í samtalinu við báðar umræður.

Aftur að stefnumótun fyrir málefnasvið og málaflokka. Samkvæmt 5. og 20. gr. laga um opinber fjármál skal kynna stefnumótun fyrir einstök málefnasvið í fjármálaáætlun. Þar segir jafnframt að hver ráðherra skuli setja fram stefnu fyrir þau málefnasvið og málaflokka sem hann ber ábyrgð á. Í fjármálaáætlun sem lögð var fram fyrir ári síðan var birt stefnumótun málefnasviða og í fjárlagafrumvarpi ársins 2017 var birt stefnumótun fyrir einstaka málaflokka. Nú er verið að samþætta þá vinnu og gera grein fyrir stefnumótun ráðuneyta fyrir bæði málefnasvið og málaflokka. Þannig á Alþingi að fá sem greinarbestar upplýsingar. Í viðaukanum birtist stefnumótunin fyrir 34 málefnasvið og 101 málaflokk. Það er ekki auðvelt að átta sig á þessari stefnumótun og setja í samhengi í fyrsta skipti sem maður fer í gegnum það, en þetta á vonandi eftir að batna á næstu árum.

Ég vil leggja áherslu á það sem ég sagði í upphafi ræðunnar að það getur ekki verið að hægt sé að leggja fram stefnu í fjármálaáætlun algerlega óháð þeirri stefnumótun sem Alþingi hefur þegar samþykkt, nema þá að sérstaklega sé gerð grein fyrir hugsanlegu ósamræmi sem þar birtist.

Ég tel þess vegna að eitt af brýnustu verkefnum fastanefnda, þ.e. annarra nefnda en fjárlaganefndar, sé að fara yfir það samræmi sem birtist í þeim málaflokkum sem undir nefndirnar heyra þegar horft er til laga, langtímaáætlana og framkvæmdaáætlana. Í einhverjum mæli hefur það verið gert í umsögnum nefndanna en ég held að það sé atriði sem megi bæta.

Nóg um vinnuna. Ég sný mér nú að einstökum málaflokkum og staldra fyrst við samgöngumálin. Þar blasir við að ekki er samræmi með þeirri stefnu sem Alþingi hefur samþykkt í þverpólitískri sátt og áætluninni eins og hún liggur fyrir þar sem ekki er gert ráð fyrir að mæta fjárþörf samgangna, sem eru jú eitt af mjög brýnum verkefnum þessa stundina. Ekki er gerð tilraun til að laga það ósamræmi sem er á milli samgönguáætlunar og fjármálaáætlunar með viðbótarfjármunum til samgöngumála. Er það í hróplegu ósamræmi við málflutning margra stjórnarliða þegar mótmæli tóku að berast frá almenningi snemma á þessu ári vegna fyrirséðs niðurskurðar í samgönguframkvæmdum í ár. Ríkisstjórnin virðist því ætla að sleppa tækifærinu sem hér gefst til að leiðrétta þau mistök sem gerð voru við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2017. Það á að vera öllum ljóst að aðgerðaáætlun í samgöngum til fjögurra ára fyrir árið 2015–2018 gerir eingöngu ráð fyrir algerlega bráðnauðsynlegum framkvæmdum og því er fráleitt að henni sé ekki fylgt. Það hefði mun frekar þurft að bæta í en að draga úr.

Jafnframt er ljóst að þar er vandi ríkisstjórnarinnar heimatilbúinn. Markmið stjórnarinnar um að skila 1,5% afgangi af fjárlögum á sama tíma og 2% aðhald er boðað, takmarkar mjög svigrúmið til að fara í svona verkefni. Eða eins og segir í áliti 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson skrifar undir, væri hægt að bregðast við bráðri þörf í samgöngumálum með því að lækka kröfuna um afgang af fjárlögum um að minnsta kosti hálft prósentustig.

Eins og margoft hefur komið fram í umræðunum hér gætir þenslunnar ekki nærri alls staðar utan höfuðborgarsvæðisins. Því mætti nýta fjármuni í samgönguverkefni á landsbyggðinni.

Það kemur einnig fram í nefndaráliti frá 2. minni hluta fjárlaganefndar sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir skrifar undir, en þar er vitnað sérstaklega í umsögn Samtaka iðnaðarins um að þó að mikilvægt sé að halda aftur af útgjaldaaukningu hins opinbera sé á sama tíma ekki hægt að horfa fram hjá brýnni fjárfestingarþörf í innviðum. Opinbert fjárfestingarstig er lágt. Afleiðingar þess eru þær að innviðir rýrna, sem dregur úr samkeppnishæfni samfélagsins. Mikilvægt er að hefja undirbúning og hönnun framkvæmda svo hægt sé að hefjast handa þegar svigrúm skapast.

Það kom líka fram á fundi með fulltrúum Samtaka iðnaðarins að nú væri lítið að gera hjá jarðvinnuverktökum vegna lágs framkvæmdastigs við vegagerð og virkjunarframkvæmdir og að skortur væri á greiningum hvað stöðu innviða varðar. Ég sé ekki betur en að meiri hluti samgöngunefndar sé sömu skoðunar og leggi áherslu á uppbyggingu og framkvæmdir við samgöngur á köldum svæðum, þ.e. þar sem þenslu gætir ekki. Það er því undarlegt ósamræmi sem birtist þarna í orðum og gerðum meiri hlutans.

Ég tel að uppbygging samgöngumannvirkja þurfi að vera meiri. Það er bráðnauðsynlegt að hún sé meiri til að viðhalda samkeppnishæfni jafnt einstakra landshluta sem landsins í heild.

Síðan mætti tína til ýmislegt sem ég var hissa á að sjá ekki í áætluninni. Eitt er að ekki skuli gert ráð fyrir uppbyggingu náttúruminjasafns, en eins og kunnugt er var tillaga um að byggja upp höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum samþykkt samhljóða sem ályktun Alþingis nr. 70/145, á árinu 2016. Sú ályktun gaf fyrirheit um að náttúruminjasafnið kæmist loksins á laggirnar en það er löngu kominn tími á það eftir meira en aldarlanga baráttu. Náttúruminjasafn hefur ef til vill aldrei verið mikilvægara en einmitt núna. Við þurfum virkilega að auka þekkingu þjóðarinnar á þeirri náttúru sem við búum í. Það skiptir okkur líka miklu máli í þeirri uppbyggingu sem er í ferðaþjónustunni og hlutverk okkar í miðlun upplýsinga um náttúru á norðlægum slóðum í landi sem liggur að norðurslóðum er mikilvægt í alþjóðasamfélaginu og því samstarfi sem við erum í þar. Það eru því virkileg vonbrigði að náttúruminjasafns skuli hvergi getið í ríksfjármálaáætluninni fyrir næstu árin.

Svo má nefna aðra hluti eins og að ekki sjást fjármunir í fyrirhugað menningarhús sem byggja átti á Egilsstöðum. Þáverandi menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, undirritaði viljayfirlýsingu um verkið í ferð austur á Egilsstaði tveimur vikum fyrir kosningar í október. Þar átti annars vegar að klára aðstöðu í sláturhúsinu, í menningarhúsinu á Egilsstöðum og hins vegar í safnahúsinu þar. En það loforð hefur gufað hratt upp þótt samningur liggi fyrir.

Eitt af því sem mörgum þingmönnum hefur orðið tíðrætt um hér er staða framhaldsskóla og háskóla. Mig langar að minnsta kosti að koma inn á stöðu framhaldsskólans. Eins og fram kemur í nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar, sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir skrifar undir, var í fjármálaáætlun, sem samþykkt var fyrir árin 2017–2021, gert ráð fyrir að framlög til framhaldsskólastigsins mundu hækka um 3,2 milljarða að raunvirði yfir tímabilið, eða sem svarar til tæplega 12% raunvaxtar yfir tímabilið. Á sama tíma var gert ráð fyrir umtalsverðum rekstrarsparnaði í framhaldsskólakerfinu vegna styttingar námstíma úr fjórum árum í þrjú. Áætlunin gerði ráð fyrir að allur sá sparnaður sem félli til við styttinguna héldist innan kerfis og færi í að efla framhaldsskólastigið enn frekar. Sú er svo sannarlega ekki raunin í nýrri fjármálaáætlun. Þar eru framlögin skert frá því sem áður var áætlað þannig að árið 2018 verða þau óbreytt að raungildi en lækka lítillega eftir það, eða um 0,6% árlega, sem svarar til 630 milljóna kr. sem er uppsafnað á tímabilinu. Sparnaður sem verður til við styttingu náms til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú er tekinn af framhaldsskólunum þvert á gefin loforð. Fullt tilefni hefði verið til að nýta svigrúmið til að bæta verk- og starfsnám í samræmi við þau markmið sem sett eru í fjármálaáætluninni.

Auk þess tel ég að horfa hefði mátt til ýmissa annarra hluta sem ræddir hafa verið í samhengi við styrkingu framhaldsskólastigsins, t.d. námsefnisútgáfu á íslensku og aðgengi að námsefni fyrir framhaldsskólann sem hefur verið öðruvísi en við helst kysum eins lengi og elstu menn muna.

Áhyggjur mínar af fjárframlögum til framhaldsskólanna væru þó minni ef ég sæi fram á að byggt væri á raunverulegum fjölda nemenda, en ekki áætlunum um fjölda nemenda sem ég sé ekki að standist raunveruleikann. Ég sé t.d. ekki að fjöldi væntanlegra nemenda á Austurlandi passi við upplýsingar um árganga á vef Hagstofu Íslands. Kannski er verið að horfa á mismunandi svæði, en er þetta alla vega eitt af því sem ekki er gagnsætt í áætluninni.

Það hefur sýnt sig á síðustu árum að víða hefur verið mikill munur á milli raunverulegs fjölda nemenda og áætlaðs fjölda sem fjárveitingar eru síðan byggðar á. Það segir sig líka sjálft að það fer eftir nemendahópnum sem kemur inn í skólana hversu hratt nemendur fara í gegn, því að þótt námstími hafi verið styttur er hann áfram sveigjanlegur. Það er lykilatriði. Það er því engan veginn hægt að miða eingöngu við fjölda innritaðra nemenda, það verður að taka tillit til stöðu nemenda við upphaf framhaldsskólans. En við höfum einmitt snilldarkerfi til þess, nýja einkunnakerfið, A, B, C, D, sem getur í raun spáð fyrir um hversu langan tíma það tekur nemendur að ná færninni sem farið er fram á í framhaldsskólanum, þótt auðvitað sé aldrei alveg 100% fylgni á milli.

Ég álít líka að á sama tíma og fyrirséð er að nemendum muni fækka á framhaldsskólastiginu sé mjög mikilvægt að styðja við ýmiss konar samstarf minni skólanna sem þeir hafa komið á til að tryggja fjölbreytt námsframboð, eins og t.d. fjarmenntaskólann.

Aðeins að háskólastiginu. Eins og fram kemur í nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar er áætlað að framlög til háskólastigsins verði aukin úr 41,6 milljörðum á árinu 2017 í rúmlega 44 milljarða á áætlunartímabilinu. Þar er stærsta einstaka verkefnið bygging Húss íslenskra fræða, en áætlaður kostnaður við framkvæmdina er 3,7 milljarðar á árunum 2017–2021. Háskóli Íslands mun greiða 30% en áætlað er að ríkissjóður greiði 70%. Því má gera ráð fyrir að raunvöxtur framlaga til að styrkja rekstur háskólastigsins verði um 8%, eða 3,2 milljarðar króna, á tímabilinu. Þarna kemur fram sá galli sem er á framsetningu áætlunarinnar, að rekstrar- og fjárfestingarkostnaði er blandað saman.

Fyrir síðustu kosningar tók ég þátt í fundi sem haldinn var í Háskólanum á Akureyri þar sem fulltrúar allra flokka lofuðu að stefna að því að auka framlög til háskólanna upp í meðaltal OECD-ríkjanna. En nú virðist sannarlega annað vera uppi á teningnum.

Það er ýmislegt annað sem vert hefði verið að koma inn á. Ég hefði gjarnan viljað eiga tækifæri til að halda aðra ræðu um fjármálaáætlunina en það verður væntanlega ekki þar sem ég staldra stutt við á þingi núna. En fyrirhuguð breyting á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu vekur furðu mína, ekki síst í ljósi áherslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á síðasta kjörtímabili undir forystu núverandi hæstv. forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar. Þá var áherslan á að samræma álagninguna á ferðaþjónustu þannig að markvisst yrði unnið að því að taka inn í virðisaukaskattskerfið ýmsa þjónustu við ferðamenn sem hafði verið undanþegin virðisaukaskatti, og samræma virðisaukaskatt þannig að öll þjónusta við ferðamann yrði í sama þrepi, lægra þrepinu. Í því skyni var t.d. virðisaukaskattur á áfengi lækkaður og vörugjöld hækkuð þess í stað. Nú virðist þessi samræming ekki skipta neinu máli lengur. Er skilvirknin í kerfinu virkilega hætt að skipta máli? Erum við aftur að fara að byggja upp ósamræmi og óskilvirkni í kerfinu? Þá á líka að fara í allt þetta brölt með virðisaukaskattinn fyrir tiltölulega lítil nettóáhrif, sem ég tel að væri skynsamlegra að ná eftir öðrum leiðum, eins og komugjöldum, náttúrugjöldum og gistináttaskatti.

Það er ýmislegt fleira sem vert væri að koma inn á; byggðamálin, samhengi við sóknaráætlanirnar, innleiðing á nýrri persónuverndarlöggjöf og samspil fjármála ríkis og sveitarfélaga, sem er eitt af því sem verður að koma í betra horf fyrir næsta ár.