146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir ræðu hennar. Það má kannski segja að glöggt sé gests augað í þessu samhengi þegar varaþingmaður sem ekki hefur tekið þátt í þessari umræðu frá upphafi kemur hingað inn í miðjum klíðum og kemur inn í umræðuna. Það er mjög áhugavert að fá sýn hennar á þessi mál, það hversu augljóst það er, líka þeim sem koma inn í miðjum klíðum, hversu áætlunargerðinni er ábótavant, eins og við höfum í rauninni verið að tala um allt frá því í fyrri umr. Mér fannst líka mjög áhugavert það sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni og við höfum kannski ekki rætt nógu mikið, þ.e. samfelluna frá því sem hefur verið tekin ákvörðun um og svo yfir í það sem hér er verið að leggja til og svo hins vegar tengslin við þau stöku þingmál sem eru til umræðu. Þetta finnst mér áhugavert að heyra, að þetta sé sett í samhengi.

En hv. þingmaður kom inn á ósamræmi og minntist þar á virðisaukaskattsbreytingartillögurnar. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það geti verið, eins og kemur fram á fyrstu blaðsíðu í nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar, að þessi fjármálaáætlun beri þess merki að nýr meiri hluti hafi ekki haft nægan tíma til að undirbúa og útfæra fjármálaáætlun næstu ára, (Forseti hringir.) hvort það geti hreinlega verið að þeim hafi einfaldlega ekki tekist að koma sér saman um áherslur í fjármálaáætlun næstu ára.