146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:19]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur andsvarið. Já, mér finnst margt benda til þess að stjórnarmeirihlutanum hafi ekki gefist tími til að tala sig niður á sameiginlega niðurstöðu í öllum málum. Það er eiginlega ekki hægt að lesa annað út úr meirihlutaáliti fjárlaganefndar og raunar margra annarra nefnda sem slá dálítið í og úr í álitum sínum. Meðal annars varðandi virðisaukaskattshækkunina. Það verður í raun mjög fróðlegt að sjá hvert menn fara með þá umræðu við lokaafgreiðslu þessa máls, hvað mun koma þar fram eftir alla þá umræðu sem hér hefur farið fram, bæði frá meiri hluta og minni hluta, þótt auðvitað hefði maður kosið að heyra meira frá meiri hlutanum en raunin hefur orðið.

Ég þakka hv. þingmanni líka fyrir að koma inn á og taka undir þetta með samfelluna í ákvörðunum um lagasetningu og vinnu að þingsályktunum og svo um fjármál ríkisins og sveitarfélaga. Ef ný löggjöf um opinber fjármál á að skila ávinningi fyrir samfélagið til framtíðar finnst mér þetta afskaplega mikilvægt, að þingið sé, hvort sem það er að fjalla um fjármál eða taka aðrar ákvarðanir, alltaf að reyna að tengja þessa vinnu saman. Ég held að það sé ávinningurinn af því að hafa fjármálin á dagskrá allan þingveturinn í rauninni, eða bæði á vorþingi og haustþingi.