146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:58]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú er búið að ræða ýmislegt um þessa fjármálaáætlun og eiginlega alveg óhætt að segja að hún uppfylli ekki mikið af væntingum okkar til hennar. Ég tók þátt í að fjalla um málið í efnahags- og viðskiptanefnd og þar var ákveðið að taka þann pól í hæðina að leggja bara áherslu á tekjuhlið áætlunarinnar á kostnað frekari greiningar á efnahagslegum forsendum áætlunarinnar og þess háttar. Ýmsir gestir nefndarinnar voru áhugasamir um þá hlið mála. Það kom í ljós við yfirferðina, bæði hjá nefndarmönnum og einnig hjá ýmsum þeirra gesta sem komu, að það væri töluverð óánægja með þetta, bæði efnislega varðandi tiltekin atriði, en líka almennt. Það var ein sérstök tilvitnun sem mér þótti mjög áhugaverð. Gerð var athugasemd við ýmsar fegrunaraðgerðir í áætluninni varðandi stöðu opinberra fjármála sem mér þótti heldur áhugavert. Áætlunin er bara ófullnægjandi að þessu leyti, einkum hvað varðar spágildi líkana sem stuðst er við, hæpnar forsendur, skort á gagnsæi, ófaglega aðferðafræði, en einnig í efnisatriðum sem snúa að útgjaldaþakinu, þróun ríkisskulda, skort á innviðauppbyggingu sem að sjálfsögðu mun reynast mjög kostnaðarsöm síðar. Og svo á að gera umdeilanlegar breytingar á skattumhverfinu.

Ég ætla ekki að fara yfir þetta allt enda er ekki nægur tími til þess. Mér sýnist ég hafa rétt rúmlega 18 mínútur, en ég gæti sennilega talað um þetta mál í allan dag. En ég ætla að fara aðeins yfir efnahagslegar forsendur áætlunarinnar vegna þess að þær eru verulega varhugaverðar. Við skulum byrja á því að á bls. 54 í þessari ágætu, nei ekki ágætu, lélegu bók, segir um gengisvísitölu, með leyfi forseta:

„Ekki er spáð fyrir um breytingar á gengi íslensku krónunnar í áætluninni heldur er gert ráð fyrir að gengið verði óbreytt yfir tímabilið.“

Það getur vissulega verið erfitt að gera ráð fyrir tilteknum frávikum, en það er ljóst að hér hefði verið heppilegra að ganga út frá því að eitthvert flökt myndi vera áfram og að spágildið myndi rýrna eftir því sem liði á tímabilið. Ef við skoðum bara núverandi ástand, en ég ritaði umsögnina við málið í nefndinni, hafði flöktið verið 17,31% á undanförnum 12 mánuðum. Það hefur aukist síðan þá. Jafnvel ef við myndum gera ráð fyrir því að það yrði minna flökt t.d. vegna einhverra atburða sem hefðu átt sér stað, er ljóst að við þurfum einhvers konar greiningu á þessu og hún verður að fylgja. Auðvitað mun verða flökt áfram. Krónan hefur alltaf verið á endalausu flökti og slíkt flökt hefur áhrif á verga landsframleiðslu. Það breytir væntingum okkar um skuldalækkun, tekjuafgang og getu áætlunarinnar til þess að uppfylla fjármálastefnu.

Á sama hátt er ekki greint frá ætluðum viðbrögðum við því ef hagvöxtur fellur niður fyrir væntingar, ef verðbólga fer fram úr væntingum, ef þensla eykst meira en gert er ráð fyrir — hvert þessara atriða kallar á sjálfstætt áhættumat og sviðsmyndagreiningu, vegna þess að öll þessi atriði ógna afkomumarkmiðunum þeim sem liggja fjármálastefnunni til grundvallar. Í efnahagsforsendum fjármálaáætlunarinnar er gert ráð fyrir því að verðbólga verði áfram sögulega lág. En forsendur fyrir því eru satt að segja afskaplega óljósar, sérstaklega í ljósi þess þenslustigs sem við horfum nú upp á.

Gert er ráð fyrir því að kaupmáttaraukning verði minni en verðbólga á síðari hluta spátímabilsins, en það felur í sér raunskerðingu á kaupmætti samhliða minnkandi launaþróun. Það er ýmislegt sem er að gerast þarna og þessi kerfi togast öll á og hafa áhrif á niðurstöður áætlunar gagnvart ríkisrekstrinum. Síðan er sumt sem er alveg fráleitt. Á bls. 8 í áætluninni segir, með leyfi forseta:

„Ef spáin gengur eftir verður tímabilið eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeið Íslandssögunnar.“

Þessa vitleysu er búið að endurtaka margoft úr þessu púlti og er í fjármálaáætluninni en þetta er bara bull. Það er vissulega rétt að þetta verður eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeiðið, en ef við skoðum öll löngu hagvaxtarskeiðin kemur í ljós að þetta tímabil yrði í fjórða sæti af sex hagvaxtarskeiðum sem stóðu yfir í meira en eitt ár ef það endist út öll fimm ár áætlunarinnar.

Í viðbót við það erum við með útgjaldaþak sem við fórum ekki yfir í nefndinni af því að það var aðallega á færi fjárlaganefndar að gera það. En þar er samt stór áhætta sem felst í því að lækkun heildarútgjalda ríkissjóðs úr 29% af vergri landsframleiðslu í 28,4% af vergri landsframleiðslu skilur eftir svigrúm miðað við útgjaldaþakið, sem er alveg rosalega lítið, en þegar það er allt tekið saman þá er svigrúm upp á 0,1% verga landsframleiðslu, sem er um 3 milljarðar á ári eins og stendur. Það þýðir að verðbólga umfram aukninguna gæti hreinlega skapað þá stöðu að forsendur fjármálastefnunnar bregðast og þar með forsendur fjármálaáætlunarinnar. Auk þess hefur verið sagt að ef það er frávik upp á meira en 5% af vergri landsframleiðslu frá afkomutölum í aðra hvora áttina væri það nóg til þess að fjármálastefnan væri bara búin samkvæmt hæstv. fjármálaráðherra. Þannig á hvorn veginn sem það er skoðað er útgjaldaþakið afskaplega brothætt.

Síðan má tala um skattumhverfið. Það hefur verið afskaplega mikið gagnrýnt. Í ætluninni er einkum gert ráð fyrir tveimur breytingum á virðisaukaskatti ásamt öðru. Vandinn við það er að það virðist ætla að valda ferðaþjónustunni töluverðum skaða. Jafnvel þótt maður gæti sætt sig við þá breytingu hefur ekki verið unnin nein greining á því hvað áhrif hún mundi hafa annars staðar en svona heilt yfir landið og jafnvel er sú greining afskaplega lítil. Það verður að fara í landshlutagreiningu með svona atriði til þess að við séum með yfirsýn yfir hvernig þetta mun leggjast á fólk. Við vitum það nú þegar.

Komin er út greining frá Rannsóknasetri verslunarinnar sem sýnir að bara núna á síðustu fimm mánuðum er búin að vera raunlækkun á kreditkortanotkun á hvern ferðamann í fyrsta skipti í langan tíma. Auk þess er búið að sýna fram á að gistinóttum á hvern ferðamann fer fækkandi. Það voru 3,83 nætur á mann 2016 samanborið við 4,41 til 4,55 nætur á mann árin 2011–2015. Þetta er lækkun um næstum því heila nótt að meðaltali á hvern ferðamann. Það sýnir að við erum komin í þá stöðu að verðlagið ýtir fólki héðan út, fólk vill ekki lengur hanga hér vegna þess að það er bara hreinlega of dýrt fyrir það. Það er náttúrlega margt sem spilar þar inn í, það er styrking krónunnar og verðbólga og allt svoleiðis og eins vaxandi kaupmáttur, hann hefur ákveðin áhrif á þetta. Ef við förum að skella virðisaukaskattinum ofan á, sem ég væri í öðrum tilfellum alveg sammála, er hætta á því að við munum valda okkur miklum skaða sem mun taka mörg ár að raungerast.

Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir því að það sé ekki nema um 1–2% fækkun á ferðamönnum og 4% hækkun verðs til ferðamanna út af þessu, en það hefur engin landshlutagreining verið gerð. Og ekki hefur verið sýnt á nokkurn hátt fram á spágildi þessara talna. Það er engu líkara en þau hafi bara valið þessar tölur af handahófi vegna þess að — mér þykir rétt þegar fólk heldur einhverjum svona tölum fram að það geri þá alla vega minnstu tilraun til þess að sýna fram á útreikninga sína, sýna hvernig það kemst að þessari niðurstöðu.

Í viðbót við hafa margir gert fyrirvara um að allar virðisaukaskattsbreytingar af þessu tagi þurfi að gera með góðum fyrirvara til þess að hægt sé að bregðast við þeim í verðlagi, sérstaklega þegar verið sé að selja vörur langt fram í tímann.

Svo er hægt að tala mikið um aðra hluti. Mér finnst áhugavert í því samhengi að taka tillit til samspilsins milli núverandi húsnæðisvanda sem veldur miklum usla í samfélaginu, að hluta til vegna aukins ferðamannastraums, en líka að hluta til vegna þess að við höfum ekki byggt nógu mikið af íbúðarhúsnæði. Þar er vandamálið hreinlega að það er þensluhvetjandi að ráðast í miklar framkvæmdir, húsnæðisuppbyggingu og þess háttar, en á móti kemur að núverandi húsnæðisvandi hefur í för með sér mikla eftirspurn eftir húsnæði sem skapar líka þenslu. Sú þensla minnkar ef við förum að byggja. Það er því ekki hægt að fullyrða um hvort það yrði að lokum minni eða meiri þensla vegna þess. En ef hér er mikið vandamál, 9.000–11.000 íbúðir sem vantar í samfélaginu, að mér skilst. Við höfum alla vega góða tilfinningu fyrir því, og það mætti greina, að það mundi slá á þensluna með einhverju móti, og þá eigum við auðvitað að fara í þess háttar framkvæmdir. Aðgerðir sem eru tengdar húsnæðisstuðningi í fjármálaáætlun eru ekki einu sinni kostnaðarmetnar. Þær ganga einhvern veginn út frá því að viðhalda núverandi kerfi og bygging 1.800 íbúða er bara dropi í hafið miðað við þá uppsöfnuðu þörf sem er í samfélaginu.

Ef við lítum til reynslu síðustu ára þar sem Íbúðalánasjóður hefur selt frá sér rúmlega þúsund í búðir í kippum á árunum 2015–2016 í stað þess að setja þær út á almennan sölumarkað, þá virðist ástandið vera rosalega erfitt. Maður á erfitt með að trúa því að í þessari fjármálaáætlun sé raunverulega tekist á við húsnæðisvandann sem er til staðar. Það er einhvern veginn bara gert ráð fyrir því að ósýnilega höndin komi og reddi þessu með einhverjum hætti. Ég veit ekki alveg hvernig það ætti að vera, en ég þykist vita að ósýnilega höndin er ekki byggingaverkfræðingur.

Skortur á sannfærandi viðbragðsáætlun vegna húsnæðisskorts dregur úr trúverðugleika þessarar fjármálaáætlunar. Síðan hafa sveitarfélögin komið og lýst töluverðri óánægju við fjármálaráðuneytið með gerð fjármálaáætlunarinnar hreinlega vegna þess að það var ekkert samráð haft. Það er mjög slæmt, sérstaklega þar sem kveðið er á um samráð milli ríkis og sveitarfélaga við gerð fjármálaáætlunar. Það er að finna í 11. gr. laga um opinber fjármál. Það er ekki hægt að búa til fjármálaáætlun án þess að það skref sé stigið. Ef það er ekki gert er það lögbrot. Ég held að við ættum almennt ekki að samþykkja slíkt hérna.

Reyndar, ef út í það er farið, er skortur á gögnum í fjármálaáætluninni, sem er líka lögbrot vegna þess að það á að vera sundurliðun á ýmsum þáttum sem ekki er þar. Fyrst við erum komin ofan í þessa kanínuholu þá eru mjög víða aðgerðalýsingar í fjármálaáætluninni þar sem sagt er hvaða aðgerð eigi að fara í og hvernig mæla eigi árangur af henni. Stundum eru mælingarnar engar sem lagðar eru til, en yfirleitt eru þær þannig að það er ekki nokkur leið að meta hvort raunverulega hafi tekist að leysa verkefnið. Þegar það er hægt er ekkert skref þar á eftir. Það er náttúrlega allur gangur á þessu vegna þess að þetta eru ansi margir kaflar, en það virðist ekki vera neitt innra samræmi milli kaflanna í fjármálaáætluninni. Það gerir það að verkum að við getum ekki metið það.

Svo ég komi aftur að sveitarfélögunum þá gerir fjármálaáætlun ráð fyrir lakari afkomu sveitarfélaganna árin 2017–2018 en betri afkomu árin 2020–2022. Það var auðvitað ekkert samráð haft við sveitarfélögin um þá greiningu og engin útskýring er á þeim frávikum þannig að við verðum bara að trúa því eða ekki — sem ég ætla að leyfa mér að gera. Í 5. kafla áætlunarinnar er fjallað um fjármál sveitarfélaganna, en það hefur bara ekki verið talað við neinn. Það er alveg ótrúlegt.

Það hefur verið viðloðandi vandi í mörg ár að sveitarfélög hafa þurft að láta alla innviðauppbyggingu sitja á hakanum vegna þess að þau eiga enga peninga eftir til þess að sinna henni. Miðað við fjármálaáætlun verður innviðauppbyggingu áfram slegið á frest, sem þó er víða orðin mjög mikil þörf á. Til viðbótar má vænta neikvæðrar afkomu sveitarfélaga upp á 8 milljarða kr. og það með ríkisstjórn sem sett hefur það sem markmið að ná heildarskuldum sveitarfélaga niður þannig að við séum með allan ríkisrekstur undir 30% af vergri landsframleiðslu í skuldum. Ég skil ekki hvernig það á að ganga upp. Það mætti tala um þetta eins og margt annað í allan dag.

Herra forseti. Af öllu þessu má sjá, og ég gæti svo sem tínt miklu fleira til, að fjármálaáætlunin er með öllu ófullnægjandi. Aðferðafræðilega er hún fyrir neðan allar hellur. Hún myndi ekki fá góða einkunn neins staðar. Það er ekki hægt að segja að greiningarvinnan hafi verið unnin með áreiðanlegum hætti eða jafnvel yfir höfuð unnin í mörgum tilfellum. Margar lykilupplýsingar eru bara hreinlega ekki til staðar. Heilu töflurnar eru tómar í þessu plaggi. Mælanleg markmið eru engin, villurnar eru töluvert margar. Það er hægt að draga margs konar lærdóm af svona vinnu. Eitt af því er að það þarf að vinna þetta upp á nýtt. Ríkisstjórninni gefst tækifæri til þess núna vegna þess að hún gæti ákveðið að draga tillöguna til baka. Það væri skynsamlegt og eðlilegt í þessu tilfelli, og svo væri hægt að leggja hana aftur fram í haust. Þá væri kannski búið að fylla upp í töflurnar, laga aðferðafræðina, setja fram skýrari gögn, koma í veg fyrir þau lögbrot sem stefnir í hér og búið að eiga samráð við sveitarfélögin. Búið væri birta þau gögn sem eiga að koma fram og jafnvel yrði það gert á rafrænu formi þannig að við gætum notið þeirra. Þá held ég að áætlunin myndi ganga nokkuð greiðlega gegnum þingið.

Við erum ekkert endilega á móti öllu hér. Það er sumt gott hérna. Þetta er niðurskurður að mestu leyti. Það eru stórar spurningar um heilbrigðisþjónustuna. Það eru stórar spurningar um alls konar þætti. En það væri kannski hægt að laga það. Við eigum einmitt að reyna að vinna saman hér á þinginu að því að laga svona lagað en ekki gera eins og fjárlaganefnd gerði, að skila meirihlutaáliti þar sem er kvartað og kvartað undan alls konar göllum en engar breytingar lagðar til vegna þess að það myndi ekki þóknast yfirboðaranum.

Það væri æskilegt að fjármálaáætlun yrði dregin til baka. Ef hún verður ekki dregin til baka ættum við að sameinast á þinginu um að fella hana vegna þess að hún uppfyllir ekki lög, í henni felast lögbrot. Það eru ekki næg gögn. Aðferðafræðin er röng. Það er lélegt. Sumir hafa staðið hér og fært rök fyrir því að þetta dugi í bili og sagt að við gerum bara betur næst, að það megi bara laga alla þessa galla á næsta ári. Það er svolítið eins og að ákveða að laga ekki húsþak fyrr en eftir næsta vetur, þannig að það rignir þá bara á okkur í heilt ár? Ég held að það gangi ekki. Húsið lekur, herra forseti, og við verðum að stoppa lekann.

Ég veit ekki hvað ég á að segja vegna þess að við erum búin að vera að tala hér um þetta af nokkuð mikilli nákvæmni. Það er búið að fara vel yfir þetta. Ég er rosalega ánægður með allar umsagnirnar sem skrifaðar voru í nefndunum og hvað sú vinna var faglega unnin. Margt gott hefur komið út úr þessu ferli. En þegar við byggjum á ömurlegum forsendum sem eru ekki faglega unnar og engin tilraun er gerð til þess að laga það og við höldum einhvern veginn áfram að fúska okkur fram úr vitleysunni aftur og aftur þá verður fólk að vera tilbúið til að segja: Ókei, þetta er ekki nógu gott. Tökum þetta til baka, gerum eitthvað betra, reynum að vinna þetta vel. Ef menn eru ekki til í það þá veit ég ekki alveg til hvers við erum hérna, vegna þess að hlutverk þingsins á að vera að bæta löggjöfina, að bæta úr tillögunum, að bæta hlutina þannig að við fáum betri niðurstöðu.