146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:01]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að það sé ábyrgt að leggja fram ábendingar um að frekari gagna verði aflað. En þegar það helst í hendur við að lagt er til að tillagan sé svo samþykkt óbreytt finnst mér það ekki sérstaklega ábyrgt. Því gagnaöflun um eitthvað sem orðið er að veruleika, sem búið er að samþykkja, er góðra gjalda verð; okkur sagnfræðingum hugnast slík gagnaöflun mjög vel. En gagnaöflun sem menn nýta sér til að taka ákvörðunina, byggja hana á þeim gögnum sem verið er að afla, eru að mínu mati ábyrg vinnubrögð.

Vissulega er þetta stuttur tími. En hefði þá ekki verið ráð að reyna að lengja þann tíma eins og kostur var? Kom það aldrei til tals innan stjórnarliðsins að kannski væri ekki sniðugt að láta dagatalið ráða för fyrst og fremst í þessu heldur fara kannski fram á skilning frá Alþingi um að vegna aðstæðna (Forseti hringir.) væri hægt að fara aðeins meira inn í árið en raunin varð með vinnuna á þessu málið?