146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur náttúrlega alveg fyrir og er ekki alveg nýtt, hv. þingmaður verður að hafa það í huga, að vonbrigðin hafa nú verið til staðar undanfarin ár eftir að þjóðarhagur fór að batna 2012, 2013. Þá voru menn að vonast til að hægt væri að fara að gefa betur í í samgöngumálunum. En svo gerðist það að hluta til á síðasta kjörtímabili að menn uppfærðu ekki hina mörkuðu tekjustofna þannig að þar er nú kominn slaki upp á örugglega um 8, 8,5–9 milljarða kr. ef við tökum tillit til þróunarinnar frá því að samgönguáætlun kom fram í fyrra vor þar sem það var metið á rúma 7. Síðan hefur umferðin aukist og allt það, þannig að það er alveg ljóst að bara með því einu að fullnýta þessa tekjustofna gætum við haft um 8, 9 milljörðum meira úr að spila í vegamálum. Hvað er það? Það er u.þ.b. það sem vantaði upp á að samgönguáætlunin sem samþykkt var í fyrrahaust væri samþykkt. Það var a.m.k. mat Alþingis að þá innspýtingu þyrfti til. Komið var með 2 milljarða við lokaafgreiðslu fjárlaga, en út af standa einir 8, þannig ef við fullnýttum hina mörkuðu tekjustofna og hækkuðum bensíngjaldið, olíugjaldið, þungaskattinn, kílómetragjaldið í einhverjum áföngum gætum við verið með þessa fjármuni í viðbót inn í vegakerfið. Það er bara þannig. Það mundi gjörbreyta stöðunni. Í raun þyrfti meira til því að uppsöfnuð þörf er svo gríðarlega mikil í viðhaldi, í nýbyggingum, í öryggisráðstöfunum o.s.frv.

Varðandi sveitarfélögin hef ég sömuleiðis nefnt þeirra þröngu afkomu. Það er alveg ljóst að afkoma þeirra er u.þ.b. í járnum plús/mínus mjög óverulegt og áætlunin gerir ekki ráð fyrir að hún batni að neinu ráði. Sveitarfélögin eru flest að ná sér upp fyrir núllið þessi misserin með því að halda aftur af sér í fjárfestingum og reyna þannig að ná skuldaviðmiðunum. Fjárfestingarstigið er líka mjög lágt hjá sveitarfélögunum. Það bætir við hina uppsöfnuðu þörf innviðafjárfestinga í landinu. Það er ekki bara hjá ríkinu sem of lítið er lagt í vegi, hafnir, flugvelli, hús, það er líka hjá sveitarfélögunum. Þjóðhagslega er þessi vandi því gríðarlegur og hann safnast hratt upp. Það er alveg rétt að það þarf (Forseti hringir.) að huga að afkomu sveitarfélaganna í því og svo auðvitað byggðamálunum sem hv. þingmaður nefndi, en ég hef ekki tíma til að koma inn á þau.