149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[14:09]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Tekjustofnar sveitarfélaga eru útsvar, fasteignagjöldin og síðan er það jöfnunarsjóður. Framlög úr jöfnunarsjóði eru auðvitað breytileg og fara eftir ýmsu, m.a. íbúafjölda.

Sveitarfélögin reka grunnskóla, þau sjá um málefni fatlaðra og málefni barna o.s.frv. og þetta eru dýrir póstar. Sveitarfélögin hafa einmitt kvartað undan því að tekjustofnarnir standi ekki undir því að veita góða þjónustu við nærsamfélagið og þessa viðkvæmu hópa sem þeim er ætlað samkvæmt lögum að sinna vel. Ég get ekki séð að það séu mikil færi fyrir sveitarfélögin að lækka útsvarið. Ég átta mig ekki á því hvernig það gæti gengið.

Varðandi Suðurnesin sérstaklega þá vil ég segja þetta: Auðvitað kemur meira í sveitarsjóð þegar íbúum fjölgar. Það verður meira úr að spila í sveitarsjóð fyrir þau verkefni sem sveitarfélögin þurfa að glíma við. Reykjanesbær fór nánast á hausinn og það var ljóst í kosningunum 2014 að það voru 42 milljarðar í mínus sem þurfti að vinna upp þannig að það var stór skuld sem þurfti að greiða og íbúarnir þurftu að greiða hærra útsvar og sætta sig við lakari þjónustu. Þegar ríkið stendur í ofanálag ekki undir þjónustu við íbúana þá verður til reiði í samfélaginu, sem er ekki góð fyrir neinn. Og núna þegar sveitarfélögin eru að krafsa sig (Forseti hringir.) upp í betri stöðu með útsvarinu og með tekjustofnunum sem eru að vaxa, þá verður ríkið að koma til móts við þau og (Forseti hringir.) treysta innviðina. Við Suðurnesjamenn (Forseti hringir.) eigum auðvitað rétt á sömu þjónustu og aðrir landsmenn. (Forseti hringir.) Við getum ekki sætt okkur við það að vera sett neðar en aðrir hvað þetta varðar.