149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

dánaraðstoð.

138. mál
[16:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að ég er ansi hugsi yfir þessari þingsályktunartillögu sem við ræðum nú, um dánaraðstoð. Ég er í sjálfu sér alls ekki mótfallin því að málið sé til umræðu og skoðað en mér finnst það óþægilegt og tel að við séum kannski aðeins að fara fram úr okkur þegar talað er um hugsanlegar lagabreytingar sem þurfi að verða í kjölfarið. Ég tel að við séum ekki komin þangað að við eigum að vera að ræða það skref á þessu stigi, en leggst hins vegar á engan hátt gegn því að safnað sé saman upplýsingum um málið og að fram fari umræða. Það held ég sé bara af hinu góða. Ég tel hins vegar að það þurfi að gera það í víðara samhengi en lagt er til í þessari þingsályktunartillögu. Hún einblínir að mínu mati of mikið á heilbrigðiskerfið, hér á t.d. að taka saman tíðni og ástæður en yfirleitt í tengslum við heilbrigðiskerfið. Ég held að það þurfi að víkka þetta út. Ég tel að það þurfi að skoða þessi mál með velferðarkerfi landa undir, ekki bara heilbrigðishlutann.

Í mínum huga er það hvernig fólk lítur á ævilok sín beintengt aðgengi að þjónustu, lífskjörum og stöðu í miklu víðara samhengi en bara því sem gæti tengst sjúkdómi. Í mínum huga má þetta aldrei verða spurning um að geta orðið einhvers konar úrræði sem til að mynda tekjulágir myndu frekar kjósa að nýta sér en þeir sem eru tekjuhærri, vegna þess að hinir tekjulægri gætu ekki keypt sér eða orðið sér út um alls konar þjónustu sem velferðarkerfið býður jafnvel ekki upp á. Hins vegar er alveg hægt að klæða það, með þröngu sjónarhorni, í búning þess að það sé hin slæma heilsa eða engin von um bata sem ráði því að fólk telur nóg komið af þessu jarðlífi, á meðan það er kannski frekar hin félagslega staða sem getur ráðið þar nokkru um.

Í því ljósi er líka áhugavert að skoða þá umsögn sem Siðfræðistofnun Háskóla Íslands skilaði inn um málið þegar það var lagt fram á síðasta þingi. Þar er bent á að ástæður þess að fólk óskar eftir líknardrápi, í þeim löndum þar sem það er leyft, hafi verið að breytast og einskorðist ekki við dauðvona sjúklinga heldur færist í vöxt að eftir því óski fólk með langvinna geðræna sjúkdóma, fólk sem er illa haldið af áfengissýki, jafnvel fólk sem er leitt á lífinu — það sem er kallað hér „tired of life“ sem ég gef mér að sé einhvers konar hugtak sem er þekkt eða hægt að nota til að leita sér að upplýsingum um þessi mál, það sé sá frasi sem er notaður. Það færist í vöxt að fólk í þessum hópum nýti sér eða óski eftir líknardrápi. Þetta talar beint inn í það félagslega samhengi sem ég var að tala um í fyrri parti ræðu minnar.

Ég tel því ofboðslega mikilvægt að velferðarnefnd, sem fær nú málið í sínar hendur, taki þessa þætti líka inn í sína vinnu og leggi þar áherslu á að kalla jafnframt eftir og grafa upp reynslu fatlaðs fólks og langveikra — og þá á ég við langveikra sem eru með sjúkdóma sem eru ólæknandi og langvinnir en hafa ekki þannig áhrif að þeir stytti meðalævilíkur þeirra sem eru haldnir þeim sjúkdómum — og leita eftir þeim upplýsingum sem eru til um þessa hópa og kalla eftir reynslunni af þessu. Þá er hægt að hafa þessa umsögn Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands til hliðsjónar.

Hér hafa Holland, Belgía og Kanada verið nefnd í máli framsögumanns sem dæmi um lönd sem hægt sé að horfa til sem fyrirmynda. Þá held ég að mikilvægt sé líka að horfa til Bandaríkjanna þar sem eru ríki sem hafa leyft líknardráp. Þar hefur komið í ljós að meðal þeirra sem hafa nýtt sér það er fólk með geðræna erfiðleika, sem er auðvitað fólk í allt annarri stöðu en fólk með krabbamein á lokastigi.

Mér finnst mjög mikilvægt hér í fyrri umr. að vekja athygli á þessu sjónarhorni og ég kalla eftir því að velferðarnefnd skoði málið líka út frá þessum atriðum. Verði þingsályktunartillagan samþykkt verði hún með þessari viðbót, hún yrði þá partur af skýrslunni. Mér finnst að fyrst eftir að slík vinna hefur farið fram á svona breiðum grunni, þar sem ekki er bara litið til heilbrigðisþáttanna heldur velferðarmálanna í heild sinni, sé mögulega hægt að fara að ræða um hvort í framhaldinu eigi hugsanlega að breyta einhverjum lögum. En ég tel okkur alls ekki vera á þeim stað núna að fara að ræða það í þessu samhengi. Það eigi að afla upplýsinga, afla þeirra í víðu samhengi og hafa umræðuna á sem breiðustum grundvelli.