149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

dánaraðstoð.

138. mál
[17:13]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Þessi tillaga er um málefni sem er viðkvæmt. Við vitum það. Ég er ekki mjög jákvæður maður en ég horfi nokkuð jákvæðum augum á þessa tillögu. Hún er auðvitað hógvær. Hún snýst um að taka það saman hvað þarf að ræða. Ég sé ekkert athugavert við það. Ég tel mjög mikilvægt að þessi umræða sé tekin, það sé skoðað hvernig þetta er annars staðar, hvernig umræðan er annars staðar, hvort sem það er í löndum þar sem þetta er leyft eða löndum þar sem þetta er ekki leyft. Ég upplifi svolítið svipaða umræðu núna og var á sínum tíma í kringum frumvarpið um réttindi sjúklinga, þann rétt sjúklings að taka ákvörðun um það hvort hann þiggi læknishjálp eða ekki í þeim tilvikum þar sem læknishjálp eða aðstoð gat bjargað lífi viðkomandi eða var nauðsynleg til þess að viðkomandi lifði og jafnvel hamingjusömu lífi eftir það. Þessi réttur til að hafna þjónustu gat auðvitað leitt til dauða. Þetta eru í sjálfu sér ekkert ósvipuð siðfræðileg, lögfræðileg eða kannski trúarleg atriði sem við erum að fjalla um hér.

Það hefur örugglega ekki verið auðvelt fyrir marga heilbrigðisstarfsmenn eða lækna að sjúklingur segi: Ég vil ekki þessa meðferð. Ég vil ekki blóðgjöf, til að mynda. Viðkomandi missir síðan meðvitund og læknirinn veit að hann getur auðveldlega bjargað lífi viðkomandi en gerir það ekki. Það er ekki auðvelt fyrir lækninn. Þarna eru menn að meta raunverulegt frelsi fólks til að taka ákvarðanir um eigið líf og eigin dauða. Þetta er engu að síður vandmeðfarið, þó að ég sé í grundvallaratriðum á því að fólk eigi að ráða hvort það lifir eða deyr. Það þarf ekki að vera sjúkt mín vegna. Að ég geti ráðið því. En mitt frelsi nær ekki lengra en svo að frelsi annarra getur verið sterkara í þessu, þ.e. ég á engan rétt á því að einhver annar bindi enda á líf mitt. Frelsi mitt er ekki svo mikið. En ég held að það sé mikilvægt engu að síður, þetta frelsi til að taka ákvarðanir um líf sitt og dauða. En það skiptir auðvitað miklu máli hvernig regluverkið í kringum það er. Mjög miklu máli. Það þarf að vanda vel til verka ef menn eru á annað borð á þeirri leið að heimila dánaraðstoð, hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi o.s.frv.

Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar að áhyggjur hans snerust um það hvort hægt væri að treysta viðkomandi til að taka slíkar ákvarðanir. Ég held að við eigum almennt ekki að vera að ákveða það hverjum sé treystandi til þess, nema ef augljósir andlegir annmarkar séu á viðkomandi til að taka slíkar ákvarðanir. En sjálfráða og fullráða fólk á auðvitað að geta tekið þær ákvarðanir þó að okkur finnist þær óskynsamlegar, fráleitar. Mín skoðun er í grundvallaratriðum sú að að uppfylltum ákveðnum skilyrðum eigi fólk einfaldlega að fá að taka ákvarðanir af þessum toga. Ég geri mér grein fyrir því að menn horfa á þetta með ýmsum hætti og ekki síst er þetta siðferðislegt álitaefni í huga margra þótt svo sé ekki beinlínis í mínum huga.

Ég veit að við eigum seinna eftir að tengja þessa umræðu fólki sem glímir við ýmsa sjúkdóma. Við getum sagt að sjúkdómurinn og eðli hans sé kannski þannig að menn taki ákvarðanir hvað þetta varðar sem það myndi aldrei taka ef sjúkdómurinn væri ekki til staðar. Það er auðvitað ákveðið vandamál sem við erum að glíma við. En svo höfum við auðvitað bara stóra hópa sem hafa engin lífsgæði en eru ekkert í líknandi meðferð í sjálfu sér. Þeir eru ekki deyjandi. Þetta er ekki bara spurning um að bíða eftir dauðanum, að stytta þá bið, heldur gæti fólk jafnvel lifað lengi en hefur engin lífsgæði, lífið er beinlínis íþyngjandi. Af hverju má slíkur aðili ekki taka ákvörðun af þessu tagi? Getum við alltaf sagt að hann sé ekki í standi til að taka slíkar ákvarðanir vegna einhvers? Þetta eru allt álitaefni. En þessi tillaga er nú ekki djarfari en svo að við förum og skoðum þetta með opnum huga, í hvaða tilvikum þetta gæti átt við, hvaða reglur gætu gilt um þetta og jafnvel bara yfir höfuð hvort þetta eigi alls ekki að leyfa undir nokkrum kringumstæðum. Ég er ekki þar. Ég er á sama stað og ég var í umræðu, þá ungur lögfræðingur, þegar lögin um réttindi sjúklinga komu fram í frumvarpi. Ég man þá umræðu. Margir voru mjög á móti því að fólk gæti tekið ákvarðanir um að hafna læknismeðferð, ákvörðun sem gæti svo dregið það til dauða. Ég held að þessi umræða verði alveg eins að mörgu leyti. Þó er þetta kannski aðeins vandasamara álitaefni vegna þess að það þarf fýsíska aðgerð til að gera eitthvað, ekki athafnaleysi eins og er kannski varðandi það að sinna ekki ákveðinni læknisþjónustu. Það þarf beinlínis athöfn til að binda enda á líf fólks. Í mínum huga er enginn rosalegur munur á athafnaleysinu og athöfn í þeim málum að binda enda á líf fólks. Það snýst alltaf bara um hver sé vilji viðkomandi. Er hann raunverulegur, þ.e. er hann hæfur til að taka slíka ákvörðun? Er hann fullráða? Andlega heill? Gerir það af fúsum og frjálsum vilja, eins og segir í erfðaskránum? Í standi til að taka svona ákvörðun? Það er lykilatriðið á endanum.