149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

uppgræðsla lands og ræktun túna.

397. mál
[18:18]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Suðvest., Bryndísi Haraldsdóttur, fyrir ágætisandsvar. Ég tek undir áhyggjur hennar af þeim fréttum sem bárust í gær. Það er gríðarlegt mikilvægt að við veikjum ekki grunninn að rannsóknum og vísindastarfi í okkar góða landi. Við erum svo lánsöm að eiga sterka einstaklinga á því sviði sem búa yfir mikilli þekkingu og kunnáttu. Ég tek undir það og ég held ég hafi sagt það líka í ræðu minni að við megum ekki glopra þessu niður. Við erum í einstakri stöðu að svo mörgu leyti og við verðum að verja hana. Það er margt sem við erum góð í og hjá Landgræðslunni og fleiri stofnunum, Skógræktinni, býr fólk yfir gríðarlega góðri þekkingu.

Svo megum við ekki gleyma því að fólkið sem hefur búið í landinu og bændurnir sem hafa verið að yrkja landið þekkja landið hvað best. Ég þekki engan bónda sem hefur ekki haft það að markmiði að skila landinu í betra ástandi en þegar hann tók við því. Þá er auðvelt að benda á fjöldamörg dæmi. Og svo ég láti aðeins hugann reika heim í mína sveit, þangað flutti ég fyrir rúmlega 30 árum og þar voru menn byrjaðir að fara með moð úr görðum og heyfyrningar á tún og mela. Þetta er allt orðið uppgróið og fallegt þannig að árangurinn er sannarlega til staðar. Ef við getum nýtt þessi auðæfi okkur til hjálpar til að græða landið og verja það, þá held ég að það sé gott.

En ég tek undir áhyggjur þingmannsins um stöðuna í Landbúnaðarháskólanum og ég vona að nefndin finni einhverjar leiðir til að hnykkja á því og hnýta við þessa tillögu. Ef það er hægt þá fagna ég því.