149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

uppgræðsla lands og ræktun túna.

397. mál
[18:20]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni og ég tek heils hugar undir að við eigum auðvitað að nota okkur þekkingu bænda því þeir eru jú vörslumenn landsins og ég hygg að þar búi gríðarlega mikil þekking. Þar eru ekki síður tækifæri í þessum efnum. Þess vegna eigum við að vinna með þeim og þess vegna er þessi þingsályktunartillaga mjög þörf og góð.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á þá þekkingu sem liggur hjá Landgræðslunni og Skógræktinni. Ég verð nú að segja að ég hef oft og tíðum viljað sjá þessar tvær stofnanir sameinast til að einfalda stjórnsýslu og hafa hana skilvirkari. En kannski lýtur athugasemd mín fyrst og fremst að því að við gætum vel að því, og ekki ætla ég saka einhvern um að gera það ekki, en ég vil bara ítreka það að þegar ráðherra kemur fram með sína tillögu þá byggi hún á vísindalegum grunni og þekkingu. Þess vegna hjó ég sérstaklega eftir þessum fréttum í gær um stöðu rannsókna hjá Landbúnaðarháskólanum og tel ástæðu til að fara sérstaklega yfir það. Með þessu er ég bara að leggja áherslu á að í allri svona vinnu byggjum við á slíkum gögnum. Ég efast ekki um að það er mikil þekking líka innan Landgræðslunnar.

Svo er það kannski líka þetta sem ég nefndi áðan, að við drepum ekki mjólkurkúna, ef svo má segja, þegar kemur að þessum mikilvægu rannsóknum og þekkingu. Við erum líka að flytja út þessa þekkingu. Við verðum að muna að við höfum svo mikið fram að færa í þessum efnum. Og talandi um þróunaraðstoð áðan, þá höfum við þessa þekkingu og þó að við séum lítið land höfum við mikið fram að færa. Þess vegna verðum við að halda vel utan um þekkingu okkar og stuðla að enn frekari rannsóknum og nýsköpun á þessu sviði.