150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við glímum ekki aðeins við afleiðingar Covid-19 á heilsu fólks og efnahag heldur glímum við einnig við niðursveiflu í hagkerfinu sem faraldurinn gerir svo enn dýpri. Í þessari stöðu verðum við að verja velferðarkerfið, vinna gegn atvinnuleysi og styðja við atvinnulífið og rekstur heimila í landinu. Við verðum að hafa augun á heildarmyndinni og grípa til nauðsynlegra aðgerða strax en leggja um leið línurnar til lengri tíma. Það er afar mikilvægt að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækja og vinna gegn frekara atvinnuleysi eins og hægt er. Málið varðar atvinnu og afkomu fólks og fyrirtækja. Það er því algjört grundvallaratriði að heildarsamtök á vinnumarkaði komi að ákvörðunum stjórnvalda og samráð við sveitarfélög er nauðsynlegt.

Við í Samfylkingunni erum tilbúin til samstarfs og viljum hafa áhrif á ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Við þurfum að vanda okkur en vera jafnframt fljót að hugsa. Við eigum ekki að gera hvað sem er heldur það sem er rétt, gott og æskilegt í þessari stöðu. Við eigum að flýta þeim aðgerðum sem við þurfum hvort sem er að fara í, svo sem þeim sem vinna gegn hamfarahlýnun og undirbúa okkur fyrir tæknibyltinguna sem þegar er hafin, byggja fleiri almennar íbúðir og mæta húsnæðisvanda og háu leiguverði.

Við í Samfylkingunni leggjum áherslu á að tryggingagjald verði lækkað og þar verði horft sérstaklega til smærri fyrirtækja sem fyrirsjáanlegt er að verði verst úti. Frestun á greiðslu virðisaukaskatts kemur einnig til greina, að bankarnir sýni skilning og sveigjanleika og keyri ekki fyrirtæki í þrot á meðan faraldurinn gengur yfir. Bankar þurfa að hafa getu til að koma til móts við fyrirtæki, svo sem með skammtímalánum eða greiðslufrestun. Þegar framkvæmdir í samgöngum eru ákveðnar þá skiptir máli að velja mannaflsfrekar framkvæmdir líkt og brúargerð. Verkefnin þar eru næg með allar einbreiðu brýrnar og þær stærri sem bíða. Einnig ætti að flýta framkvæmdum sem vinna gegn loftslagsvanda, svo sem vinnu við borgarlínu og þeim sem auðvelda orkuskipti í samgöngum og búa til hvata fyrir fyrirtæki til að ráðast í grænar fjárfestingar.

Það verður að meta áhrif aðgerða á mismunandi hópa samfélagsins og á kynin. Gamla leiðin er að ríkið mæti kreppu með nýjum karlastörfum en það eru ekki bara karlar sem eru atvinnulausir eða verða atvinnulausir á næstunni. Atvinnuleysi hefur farið hratt vaxandi og nú eru rétt um 10.000 manns atvinnulausir. 3.900 hafa verið án vinnu í sex mánuði eða lengur og um 1.800 manns lengur en í 12 mánuði. Fleiri konur en karlar búa við langtímaatvinnuleysi og atvinnuleysisbætur eru í sögulegu lágmarki miðað við lægstu laun. Konur eru fjölmennari en karlar í þjónustustörfum og líklegt er að í ástandinu muni einkaneysla skreppa saman og þá um leið fækkar störfum í þjónustugeiranum. Fjölgun starfa í vegagerð og byggingarframkvæmdum mun því ekki duga ein og sér.

Á meðan faraldurinn gengur yfir verður fjölmennum viðburðum frestað. Tilkynningar um frestun árshátíða, tónleika og annarra skemmtana eru nú þegar farnar að berast. Þau sem vinna á þessum sviðum verða af tekjum en eru oft ekki í þeirri stöðu að ganga að sjúkrasjóðum eða öðrum sjóðum vísum. Sjálfstætt starfandi fólk á ýmsum sviðum missir vinnu vegna minni eftirspurnar eða missir vinnu vegna veikinda eða einangrunar. Til að leysa þennan tímabundna vanda ætti að setja á stofn sjóð sem sækja mætti í til að tryggja afkomu þessa hóps sem annars stendur berskjaldaður.

Ferðaþjónustan, atvinnugrein sem hefur vaxið með ósjálfbærum hraða hér á landi, mun finna illilega fyrir ástandinu. Fyrirséð er að einhverjar fjárfestingar sem ráðist hefur verið í muni ekki borga sig og nú súpum seyðið af því hversu værukær stjórnvöld hafa verið í atvinnumálum undanfarin ár. Ferðaþjónustan er stoð í atvinnulífinu sem þolir ekki mikla ágjöf. Því er mikilvægt að stjórnvöld finni leiðir til að renna fleiri og sterkari stoðum undir atvinnulífið.

Stórauka þarf fjármagn til nýsköpunar og til að hlúa að sprotum í atvinnulífinu sem eru líklegir til að vaxa vel. Fjármagn til skólanna og símenntunar þarf einnig að auka myndarlega og gefa fólki tækifæri til að styrkja stöðu sína og nýta hæfileika og starfskrafta með nýjum hætti ef núverandi atvinna glatast. Síðast en ekki síst verður að skapa heilbrigðiskerfinu strax svigrúm til að bregðast við fordæmalausri stöðu. Á meðan við siglum þennan ólgusjó er mikilvægt að við leggjumst öll á árarnar en við verðum að hafa hraðar hendur og gera niðursveifluna eins sársaukalitla og stutta og mögulegt er.