150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:01]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Við lifum á miklum óvissutímum sem krefjast þess af okkur öllum að standa saman og hugsa vel hvert um annað. Við í þingflokki Pírata munum svo sannarlega ekki láta okkar eftir liggja. Við munum róa öllum árum að því að styðja ríkisstjórnina í góðum verkum og bjóða fram aðstoð og lausnir við aðsteðjandi vanda í efnahagslífinu sem og samfélaginu í heild. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur fyrir að flytja okkur þessa skýrslu. Ég leyfi mér að taka hana á orðinu þegar hún tjáði okkur fyrr í dag að hún væri opin fyrir framlagi okkar, vilji heyra hugmyndir okkar, enda gildi einu hvaðan gott komi. Ég vona líka að hæstv. forsætisráðherra taki því jafn vel þegar okkur finnst ríkisstjórnin vera á rangri leið og hlusti þegar við í minni hlutanum sinnum mikilvægu aðhaldshlutverki okkar gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Forseti. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að aukinn kraftur verði settur í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu og því fagna ég. Við hljótum að vilja fjárfesta í framkvæmdum sem búa okkur undir framtíðina samhliða því að bæta lífsgæði okkar allra. Hér er ég að tala um fjárfestingu í grænum innviðum, fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu og fjárfestingu í hugviti og nýsköpun sem nýtist okkur til framtíðar. Við leggjum til að ríkisstjórnin flýti framkvæmdum við byggingu nýs Landspítala til að efla atvinnustig í landinu og til að við séum betur búin undir hættur sem þessar í framtíðinni. Við leggjum til að ríkisstjórnin fjárfesti í heilbrigðisstarfsfólkinu okkar sem sýnir það og sannar á hverjum degi að þau eru ómissandi hlekkur í samfélaginu. Við leggjum til að ríkisstjórnin fjárfesti í umhverfisvænni sprotastarfsemi sem eykur matvælaöryggi, bætir orkunýtingu og endurvinnslu og stuðlar að sköpun hringrásarhagkerfis sem vex í takt við náttúruna. Við leggjum til að við fjárfestum í fólkinu okkar og framtíð þess með afgerandi hætti. Og við munum leggjast gegn því af öllum krafti, standi til að þessi staða verði notuð til að skera niður í félagslegum innviðum á altari brauðmolakenningarinnar.

Forseti. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að forsendur fjármálastefnu séu brostnar. Í ljósi fyrirséðs samdráttar í hagkerfinu er einnig einsýnt að þær forsendur sem ríkisstjórnin gefur sér fyrir því að drífa sig í að selja Íslandsbanka hafa líka brostið. Ég kalla eftir því að ríkisstjórnin snúi frá þeim fyrirætlunum sínum og leiti frekar leiða til þess að nýta bankana í eigu ríkisins til að verja hagkerfið og fjárfesta í fólkinu sem það byggir.

Virðulegi forseti. Á tímum sem þessum eru margir uggandi um heilsu sína og framtíð og skiljanlegt að um sig grípi kvíði, jafnvel ótti, um afdrif okkar og fólksins sem okkur þykir vænt um. Ég er ekki hingað komin til að halda því fram að það sé ekkert að óttast, enda er það ekki satt. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur og það er eðlilegt að óttast þá heilsufarsvá sem nú gengur yfir heimsbyggðina. Öll erum við jú mannleg og það er mannlegt og eðlilegt að óttast um líf sitt og sinna og leita allra leiða til að lifa af. Á tímum sem þessum er mannlegt og eðlilegt að vilja beita öllum tiltækum ráðum til að verja sig og sína og ekki seinna en strax. Vissulega liggur á að bregðast við hratt og örugglega en við skulum ekki gleyma hvað við erum að verja. Við erum að verja fólkið okkar og við erum að verja samfélagið okkar og til þess verðum við að verja lýðræðið okkar. Lýðræðið er í mestri hættu þegar vá stendur fyrir dyrum og ákall er um afgerandi og afdrifaríkar aðgerðir af hálfu stjórnvalda.

Ég vil því hvetja hæstv. forsætisráðherra til að hafa þessi sjónarmið í huga nú þar sem strax er farið að örla á því að gefa eigi óþarfaafslátt af lýðræðinu og réttarríkinu í ljósi aðstæðna. Hér er ég að vísa í lagafrumvarp sem mæla á fyrir síðar í dag sem gefur hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra heimild til að aftengja lög um sveitarstjórnir eins og þau leggja sig án þess að fyrir því liggi ásættanleg rök né nauðsynlegar takmarkanir.

Virðulegi forseti. Við viljum að stjórnvöld geti tekið nauðsynlegar ákvarðanir og farið í hnitmiðaðar aðgerðir til að bregðast við neyð en við viljum líka að réttindi okkar sem borgara í lýðræðislegu samfélagi séu virt. Þess vegna megum við ekki láta óttann stjórna okkur né villa okkur sýn. Leyfum honum frekar að vera okkur drifkraftur til að þora að takast á við vandann á yfirvegaðan og framsækinn hátt. Þorum að hugsa stórt og þorum að grípa til aðgerða sem hagnast samfélaginu í heild til langrar framtíðar.