150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025.

643. mál
[16:19]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil ræða nokkur atriði úr skýrslu forsætisráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2018 og 2019 sem var birt í aðdraganda jafnréttisþings nú í febrúar. Ég vil þakka hæstv. ráðherra þennan flutning áðan þar sem hún fór afskaplega vel yfir það sem fram undan er í vinnu allsherjar- og menntamálanefndar vegna þessa máls.

Árið 2018 var nefnd til að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði skipuð undir forystu Ástu Snorradóttur. Í skýrslunni sem nefndin lét vinna, Valdbeiting á vinnustað – rannsókn á algengi og eðli eineltis og áreitni á íslenskum vinnumarkaði, kemur fram að um einn af hverjum tíu á vinnumarkaði hefur upplifað kynbundna áreitni á vinnuferli sínum. Þó er þessi tölfræði því miður kynjaskipt en um 17% kvenna og um 4% karla hafa upplifað kynbundna áreitni á vinnumarkaði. Þá er starfsfólk í umönnunarstörfum líklegast til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og þar á eftir kemur starfsfólki í þjónustu- og verslunarstörfum. Það er auðvitað ólíðandi að nokkur þurfi að þola kynferðislegt áreiti eða ofbeldi á vinnustað. Á vinnustað á manneskja að vera örugg og upplifa sig þannig. Umhverfið á að vera þannig úr garði gert að hún geti vaxið og dafnað.

Mig langar í þessu samhengi að ræða stöðu láglaunakvenna af því að mikið hefur verið rætt um stöðu þeirra upp á síðkastið og þá sér í lagi í tengslum við kjarasamninga. Ég fagna því að forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafi vakið athygli á stöðu þeirra og er mikilvægt að umræðan um stöðu láglaunakvenna haldi áfram. Þær vinna störf sem samfélagið gæti sannarlega ekki verið án og þær vinna störf sem snerta okkur öll á einn eða annan hátt. Samfélagið myndi ekki ganga án þeirra. Því miður höfum við sem samfélag kerfisbundið vanmetið þennan lykilstarfskraft allt of lengi og því er ánægjulegt að sú vegferð sé hafin að rétta við kjör láglaunakvenna þótt langt sé í land enn þá. Þessi rannsókn sýnir aftur á móti að það er ekki einungis efnahagslega hliðin sem birtist á launaseðlinum í lok hvers mánaðar sem við þurfum að huga að. Við verðum að taka allt starfsumhverfið til gagngerrar skoðunar. Jafnvel þarf hugarfarsbreytingu í samfélaginu öllu gagnvart fólki sem sinnir slíkum störfum til að rétta þeirra hlut við og ekki seinna vænna. Ég trúi nefnilega að umönnunarstörf muni koma til með að vera enn mikilvægari með tímanum. Eins og við þekkjum öll erum við að eldast sem þjóð og fyrirséð að við þurfum fleiri í framtíðinni í umönnunarstörf. Það skýtur þá auðvitað skökku við að í starfsumhverfinu þurfi konur alla jafna að búa við þann ótta sem fylgir því að vera áreittar eða beittar ofbeldi. Ég tala nú ekki um að launin séu eins og raun ber vitni þegar við þurfum fleiri í þessi störf. Á því erum við byrjuð að ráða bót og höldum því að sjálfsögðu áfram.

Mig langar líka aðeins að ræða alþjóðlegu #églíka-ráðstefnuna sem haldin var í Hörpu í september. Þar var um að ræða yfirgripsmestu alþjóðlegu ráðstefnu sem haldin hefur verið um það sem við höfum kallað #metoo og hlaut hún mikla og verðskuldaða athygli innan sem utan landsteinanna. Þessi ráðstefna var mikilvægt framlag landsins til hreyfingarinnar á heimsvísu og eiga þau öll sem áttu hlut í því að skipuleggja þennan viðburð mikið hrós skilið. Ég tel að frásagnir kvenna af erlendum uppruna og umfjöllun um stöðu fatlaðra kvenna sem búa við atvinnu- og framfærsluóvissu hafi m.a. verið sérstaklega mikilvægt innlegg í #metoo-umræðuna hérlendis. Kyn, stétt, kynþáttur, þjóðerni og samfélagsleg sérstaða og staða að öðru leyti eru órjúfanlegi þættir í #metoo-umræðunni og framhaldi hennar. Það er því gott að fjölbreyttar raddir hafi fengið að heyrast á þessari ráðstefnu.

Oft er rætt um Ísland sem eins konar jafnréttisparadís. Óneitanlega hefur náðst mikill árangur í jafnréttismálum hér á landi og við megum vera stolt af þeim framförum sem hafa átt sér stað og áföngum sem hefur þegar verið náð. Það er því nauðsynlegt að við höldum áfram á þeirri braut af því að sá árangur sem náðst hefur á að vera okkur hvatning til áframhaldandi framfara á því sviði.

Þingsályktunartillagan sem við fjöllum hér um frá hæstv. forsætisráðherra er lykilliður í því sameiginlega verkefni okkar að uppræta kynferðislegt og kynbundið áreiti og ofbeldi. Jafnframt tel ég að tillagan sé hluti af enn stærri baráttu fyrir jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins og sannarlega bind ég vonir við að þær aðgerðir og sú sýn sem birtist í tillögunni, með áherslu á eflingu aldursmiðaðrar kennslu, forvarna í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, muni stuðla að auknu jafnrétti og betra samfélagi fyrir okkur öll. Þess vegna tel ég afar mikilvægt að við náum að afgreiða þessa tillögu á þinginu þetta vorið.