150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[17:25]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er engan veginn að mínu viti verið að leggja til heimild til að víkja frá öllum ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Það er verið að veita ráðherra heimild til að ákveða að sveitarstjórn sé heimilt að víkja tímabundið frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga við stjórn sveitarfélags. Það eru mörg ákvæði í sveitarstjórnarlögum sem snúa ekkert sérstaklega að stjórn sveitarfélaga. Þau snúa að samtökum sveitarfélaga, formi ársreikninga og ýmsu slíku. Öll sveitarfélög setja sér reglur um stjórn og fundarsköp sem byggja á sveitarstjórnarlögum og það sem er verið að gera með frumvarpinu er að heimila sveitarfélögum að breyta þeim reglum þannig að hægt sé að taka ákvarðanir með öðrum hætti en nú segir.