150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[17:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er nefnilega dálítið óskýrt ef það er bara verið að tala um kaflann um stjórn sveitarfélags. Ársreikningar og fjárhagur eru t.d. í II. kafla, sem er þá ekki heimild fyrir, en er samt beðið um heimild til að víkja frá. Þetta er ekkert voðalega skýrt. Samkvæmt orðanna hljóðan getur sveitarstjórnarráðherra leyft sveitarstjórn að víkja frá ákveðnum ákvæðum sveitarstjórnarlaga, en það eru öll ákvæðin sem liggja þar undir í þeirri ákvörðun. Sveitarstjórnarráðherra getur ákveðið að það megi víkja frá ákvæðum um t.d. sameiningu sveitarfélaga, ákvæðum um íbúalýðræði eða eftirliti með ákvörðun sveitarfélags. Það er ekkert sem segir, samkvæmt orðanna hljóðan, að ráðherra geti ekki valið úr öllum ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Ef það er bara verið að takmarka þetta við stjórn sveitarfélags, þá kafla, þá er í greinargerðinni bent á aðra kafla sem séu vandkvæði við en eru ekki hluti af þeim kafla sem varðar stjórn sveitarfélags. Annaðhvort er orðalagið ekki nógu nákvæmt eða það er of víðfemt.