150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[18:18]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur ræðuna. Ég er enn þá fjær því að átta mig á því í hverju grundvallarmunur á skilningi okkar á frumvarpinu liggur. Þegar ég vísa í grein um stjórn og fundarsköp sveitarfélaga þá er ég að vísa í samþykkt sem hvert sveitarfélag setur sér, sem í rauninni skýrir hvað felst í stjórninni. Þessar samþykktir eru á bilinu 60–90 greinar hjá hverju sveitarfélagi og afmarka býsna vel að mínu viti hvað það er sem felst í stjórn sveitarfélagsins. Þetta snýst um stjórn og ákvörðunartöku, ákvarðanir um verkefni sem þarf að fara í í neyðarástandi. Þetta snýst um neyðarástand og ákvörðun um frávik getur aldrei varað lengur en í fjóra mánuði. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún hafi kynnt sér stjórn og fundarsköp einhverra sveitarfélaga og hvað í þeim felst.