151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

málefni fanga.

[13:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, hefur unnið ötult og mikið starf í gegnum tíðina í þágu þess að fangar sem koma út úr fangelsi geti með auðveldari hætti snúið aftur til hins borgaralega lífs og þá þannig að þeir geti komið sér í vinnu, snúið við blaðinu og orðið uppbyggilegir borgarar í stað þess að lenda aftur í sama farinu. Þessi samtök hafa starfað sem sjálfboðaliðasamtök hingað til en nýlega var samþykkt aukafjárveiting frá fjárlaganefnd, m.a. til þessa félags, og fyrst hv. formaður fjárlaganefndar er hér í salnum vil ég þakka sérstaklega fyrir viðleitni meiri hlutans í því máli. Það voru 25 milljónir sem voru samþykktar til fjögurra félaga, þar á meðal Afstöðu sem dómsmálaráðuneytið átti ásamt Fangelsismálastofnun að skipta niður á þessi félög eftir einhvers konar forskrift, þá geri ég ráð fyrir einhvers konar þjónustusamningi.

Hins vegar bólar ekkert á þessu fé og nú erum við að fara inn í annan fjórðung þessa árs. Spurningin sem vaknar er hvað sé að frétta. Félagsmálaráðuneytið bendir á dómsmálaráðuneytið. Dómsmálaráðuneytið svarar ekki. Fangelsismálastofnun kannast ekki við að þetta starf sé hafið. Því langaði mig bara að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvað sé að frétta af málinu, hvort þetta mikilvæga félag sem sinnir því brýna hlutverki að aðstoða fanga við að komast aftur út í samfélagið á uppbyggilegan hátt, geti farið að búast við því að fá stuðning yfirvalda fyrir þau góðu störf sem félagið innir af hendi.