151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta var einn mergurinn málsins í þeirri ræðu sem ég hélt áðan, að með því að taka rannsóknarhlutann út úr stofnuninni, þ.e. Rannsóknastofu byggingariðnaðarins, og koma henni annars staðar fyrir þá værum við að höggva niður það stofnanaminni sem til er. Við þurfum nú ekki að ganga langt hér um nágrennið til að sjá afleiðingar þess að ekki sé farið fram af fyllstu gætni eða öryggi þegar uppbygging húsnæðis er annars vegar. Við höfum í gegnum tíðina glímt við alkalískemmdir, mygluskemmdir nú í seinni tíð og burðarþol steypu hefur verið misjafnt af því að sementið okkar hefur verið af misjöfnum toga o.s.frv., þannig að það er brýn nauðsyn á því að þessi þekking sé til. Það er beinlínis sorglegt að menn skuli gera jafn lítið úr þeirri þekkingu og reynslu sem þarna hefur myndast eins og blasir við í frumvarpinu, því miður.