151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:26]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst vera frekar holur hljómur í þessu hjá hv. þingmanni því að hann skilgreinir sjálfan sig sem alþjóðasinna þótt hann sé ekki einu sinni tilbúinn að skoða með opnum huga þá kosti sem felast í fullri aðild að Evrópusambandinu. Mér finnst nýsköpun og nýsköpunargeirinn vera svo kjörið tækifæri til að líta Evrópusambandið jákvæðari augum en hv. þingmaður gerir, sérstaklega á meðan við höfum þá ríkisstjórn sem við höfum í dag. Í gær var kynnt fjármálaáætlun til fimm ára. Þar eiga framlög til nýsköpunar að lækka um 31 prósentustig frá 2021–2026. Ef við værum aðilar að Evrópusambandinu myndi Evrópusambandið geti vegið upp á móti niðurskurði til nýsköpunar. Það skiptir máli. Við erum að kljást við 100 ára djúpa kreppu. Ég hef haldið margar ræður um þetta, um að nýsköpun sé töfraorð í kreppu og um það erum við hv. þingmaður sammála. Það er svo merkilegt með nýsköpunarhugtakið og nýsköpun að það er þverpólitísk samstaða um að efla hér nýsköpun. (Forseti hringir.) En þá þurfa að fylgja fjármunir. Ég sé bullandi sóknarfæri, hæstv. forseti, í fullri aðild Íslands að Evrópusambandinu,(Forseti hringir.) ekki síst þegar kemur að nýsköpun og uppbyggingu á öflugu og frjóu atvinnulífi og ekki síst lítilla og smárra fyrirtækja.