151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég held áfram umfjöllun minni um Geimvísindastofnun Evrópu sem kannski kann að virðast sem skrattinn úr sauðarleggnum í samhengi við ræðurnar sem við vorum að hlýða á. En ég er að halda mína þriðju ræðu og þessi ræða er framhald af þeim sem á undan komu og þangað var ég kominn. Aðild að Geimvísindastofnun Evrópu er ekki róttæk hugmynd. Það er í reynd að mínu mati sjálfsagt að við séum hluti af slíku alþjóðasamstarfi, m.a. til þess að geta nýtt þau tækifæri sem okkur myndu bjóðast í nýsköpun sér í lagi, og langar mig að fjalla um tvo anga þess. Það er annars vegar það að geimvísindi koma inn á ansi mörg svið mannlífsins. Það gleymist stundum að geimvísindi fjalla fyrst og fremst um jörðina og við höfum mjög sterka aðila á sviði tækni og vísinda sem varða jafnvel þau svið sem fólki dettur fyrst í hug, segjum stjörnufræði og eðlisfræði, en einnig kemur veðurfræði við sögu, jarðfræði og þess háttar.

Nýlega hófst eldgos á Reykjanesskaga. Við notum gervihnattamyndir til að skoða það til að reyna að spá fyrir um hluti, til greiningar o.s.frv. Við tökum því reyndar sem sjálfsögðum hlut en þessar myndir eru teknar utan úr geimnum. Þær eru teknar af gervihnöttum sem snertir auðvitað geimvísindi og þetta er eitthvað sem er þó bara í akstursfæri frá höfuðborgarsvæðinu; snertir beint þessa tækni sem þarf til að stunda geimvísindi og iðnaðinn sem verður til í kringum þau.

Einnig langar mig á þessum örfáu mínútum sem ég hef til að fjalla ögn um kostnað vegna þess að ég veit að á bak við eyrað hvíslar lítill skratti, geri ég ráð fyrir, því að fólki að þetta hljóti að vera óheyrilega dýrt, eins og það að verða hluti af alþjóðlegu samstarfi í geimvísindum feli í sér að byggja risavaxinn eldflaugaskotpall og troða fullt af peningum inn í eldflaug og skjóta henni inn í sólina. Það er ekki þannig. Reyndar væri það fjármagn sem við myndum greiða fyrir aðild að langmestu leyti undir okkur sjálfum komið en það er vegna þess hvernig Geimvísindastofnun Evrópu virkar sem stofnun. Þetta er stofnun til að gera litlum þjóðríkjum kleift að taka þátt í stórum verkefnum. Það virkar þannig að það er ákveðin grunnupphæð sem þarf að borga til að vera með. Ef við lítum á það voru það, samkvæmt tölum sem lágu fyrir þegar þingsályktunartillaga um að sækja um aðild að Geimvísindastofnun Evrópu var lögð fram, í kringum 60 milljónir, rétt rúmlega. Í samhengi við fjárlög er það næstum því brandari, virðulegi forseti, fyrir aðild að slíku samstarfi. Það væri með næstum því engri þátttöku í svokölluðum valfrjálsum verkefnum og því myndi ég ekki leggja til að við settum einungis 60–70 milljónir í slíkt samstarf. Ég myndi þvert á móti leggja til að við settum hundruð milljóna í það samstarf, í þau valfrjálsu verkefni, með það að augnamiði að fá þau til landsins.

Virðulegi forseti. Um það snýst leikurinn, að fá til Íslands verkefni sem hægt er að vinna hér á landi, fólk staðsett á Íslandi. Það er heili punkturinn að fá verkefni til landsins. Í því felst verðmætið. Í því felst fjárfestingin og í því felst nýsköpunin. Þegar við lítum til Geimvísindastofnun Evrópu og aðildar að henni þá eigum við að hugsa stórt. Þetta eru ekki peningar sem við erum að skjóta upp í sólina. Þetta eru fjárfestingar í íslenskum innviðum, íslensku hugviti og íslenskum tækifærum. Ef við lítum sem dæmi á hlutfallslegt framlag af landsframleiðslu milli nokkurra þjóða, með þeim fyrirvara að þetta eru tölur frá 2016, sjáum við að ef við tækjum jafn mikinn þátt og Grikkland í valfrjálsum verkefnum, sem er í ESA, væri þetta um 61 milljón. Ef við tækjum jafn mikinn þátt og Belgía væru það um 750 milljónir, virðulegi forseti, sem kann að virðast há upphæð í samhengi við ekkert. En við hliðina á hlutum sem við tökum sem sjálfsögðum, ég ætla að nefna þjóðkirkjuna sem dæmi sem fær milljarða á milljarða ofan, er það ekki há upphæð. Við tökum því sem sjálfsögðum hlut en þegar komið er upp í einhverjar upphæðir, þegar kemur að slíkri aðild, þá kunna þetta að hljóma háar tölur. En, virðulegi forseti, svo er ekki. Þetta er augljóst tækifæri. Þetta kostar lítið miðað við tækifærin sem þarna eru á bak við. Við eigum að grípa þau og það ætti að vera hluti af umræðu okkar um nýsköpun.