151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:16]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stundum er sagt um eitthvað sem þykja augljós sannindi, sem þurfi ekki að fara fleiri orðum um og þurfi ekki að útskýra, að þetta séu engin geimvísindi. En þetta voru einmitt geimvísindi sem hv. þingmaður bar hér á borð og ég hlýddi á með athygli. Nú hef ég lesið nefndarálit hv. þingmanns og hv. þm. Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur, sem mynda 1. minni hluta atvinnuveganefndar, varðandi það mál sem hér er til umræðu og þekki af því nefndaráliti viðhorf hv. þingmanns til þessa máls. Ég verð þó að játa að ég hef ekki átt þess kost að hlýða á fyrri ræður hv. þingmanns um þetta mál og þess vegna leikur mér nokkur forvitni á því að heyra, eins og hann á kost á á þeim stutta tíma sem hér býðst, hvaða mat hann leggur á frumvarpið, til hvers það kunni að leiða að leggja niður þessa stofnun og hvers megi vænta fyrir það starfsfólk sem nú sér fram á óvissu og ekki síður það hugvitsfólk sem hefur notið tengsla við þessa stofnun fram til þessa en sér nú fram á óvissutíð.