151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[20:55]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ég er með á þessu nefndaráliti sem kemur frá allsherjar- og menntamálanefnd af því að ég er mjög hlynnt því að sett sé fram stefna og stefnumótun til framtíðar. Ég tel það eitt og sér vera skref í rétta átt og vona að þetta leiði til samtals við þau sem starfa innan menntakerfisins og að unnið verði að því að haga menntakerfinu þannig að það sé fyrir öll. Mig langaði aðeins að nefna, áður en ég fer í mína eigin ræðu, það sem Þorsteinn var að tala um hér áðan, þ.e. að huga þurfi að fólki í námsörðugleikum og fólki með greiningar. Það er líka hægt að taka hinn vinkilinn sem er að samfélagið þurfi kannski bara að laga sig sjálft að fólki með greiningar, að það sé ekki alltaf verið að taka það út fyrir meðalhópinn.

Ég er með fyrirvara á nefndarálitinu. Það stakk frekar mikið í augun, þegar ég byrjaði að lesa stefnuna, að fyrsta stoðin er jöfn tækifæri fyrir alla. Mér þykir miður að ekki sé stefnt að því að notast við kynhlutlaust orðalag í stefnunni, sér í lagi vegna þess að fyrir stuttu voru samþykkt hér lög um kynrænt sjálfræði. Í 1. gr. segir, með leyfi forseta:

„Lög þessi kveða á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar.“

Liður í því að viðurkenna kynvitund einstaklinga er að venja okkur á að nota kynhlutlaust málfar og þar á meðal að notast við hin svokölluðu hýryrði sem hafa komið fram á sjónarsviðið síðustu ár og uppfylla skilyrði um málfræðilegar beygingar og aðrar kúnstir sem gert er ráð fyrir að íslensk orð uppfylli. Menntastefna þessi, sem á að vera grundvöllur fyrir eflingu menntunar á Íslandi næsta áratuginn, ætti því að byggjast á jöfnum tækifærum fyrir öll kyn og endurspegla raunveruleika nemenda sem skilgreina sig utan við hið venjubundna tvíhyggju–heterónormatíva samfélag. Það hlýtur að vera partur af því að stuðla að menntakerfi sem tryggir aðgengi fyrir öll. Það hlýtur að fela í sér að virðing sé borin fyrir líkamlegri friðhelgi nemenda, kyneinkennum, kyngervi, kynvitund og kyntjáningu.

Ég ætla, með leyfir forseta, að vitna í pistil Eiríks Rögnvaldssonar, sem er prófessor emerítus í íslenskri málfræði, sem birtist á vefsíðu hans 16. ágúst 2020. Þar segir hann:

„Þótt fólk á mínum aldri sé alið upp við þessi orð höfum við flest áttað okkur á því að þau þykja ekki lengur við hæfi, og vanið okkur af notkun þeirra. Það er eðlilegt og sjálfsagt — og ekki svo erfitt.

Málið verður hins vegar flóknara þegar kemur að kynjuðu málfari — bæði notkun karlkyns sem ómarkaðs (hlutlauss) kyns, og notkun orðsins maður og samsetninga af því í vísun til beggja (eða allra) kynja. Ég veit að mörgum konum og kynsegin fólki finnst slík málnotkun útilokandi, finnst ekki vísað til sín. Við þurfum að taka þá tilfinningu alvarlega en ekki vísa henni umsvifalaust á bug.

Ef málnotkun eins og Allir þurfa að fara í skimun eða Mönnum er skipað að fara í sóttkví í vísun til blandaðs hóps verkar útilokandi á fólk, má þá ekki bara breyta henni? Það er vel hægt að segja Öll þurfa að fara í skimun (eins og var gert í fjölmiðlum nýlega) og Fólki er skipað að fara í sóttkví.“

Samtökin '78 hafa staðið fyrir svokallaðri nýyrðasamkeppni síðustu ár og þau leita eftir því sem er kallað hýryrði til þess að fá íslenska þýðingu á ýmsum hinsegin hugtökum og orðum. Á vefsíðunni frá Ö til A hafa einnig verið tekin saman ýmiss konar hugtök sem koma við sögu í hinsegin fræðum, menningu, sjálfsmynd og pólitík. Þingið og ráðuneytið getur því ekki borið fyrir sig lengur vanþekkingu eða gleymsku þegar kemur að því að tileinka sér fjölbreytt kynhlutlaust orðalag. Við skilgreinum okkur ekki öll sem sískynja karlmenn og við skilgreinum okkur ekki öll eftir fyrir fram ákveðnum kössum hins heterónormatíva samfélags sem við erum mörg alin upp við. Því er hægt að leita víða til að tryggja kynhlutlausa orðnotkun. Ég myndi helst vilja beina þessu til allra ráðuneyta, nefnda og ráðherra sem vinna texta sem er samþykktur á Alþingi. Mér finnst þó sérstaklega mikilvægt að benda á þetta í tengslum við menntastefnu þar sem við þurfum að vanda okkur við að leyfa börnum og ungu fólki að tala út frá sínum eigin raunveruleika, út frá eigin sjálfsmynd. Ég ítreka enn og aftur að við erum ekki öll gagnkynhneigð og sískynja og stefnur og áætlanir fyrir menntakerfið verða að endurspegla það.

Með leyfi forseta, ætla ég að fá að vitna hér aðeins í texta sem ég rakst á á vefsíðu Reykjavíkurborgar:

„Gagnkynhneigð sís-viðmið eru sú ályktun að allir séu gagnkynhneigðir og sískynja og að það sé eðlilegt. Tengt þessu er sú trú að gagnkynhneigð sé náttúruleg og æðri öðrum kynhneigðum. Þá eru einnig ríkjandi hugmyndir um „eðlilegt“ kyn, að kynfæri stýri kynvitund, að kynin séu einungis tvö (karl og kona) og að alvöru konur fari eftir viðteknum hugmyndum um kvenleika og alvöru karlar eftir viðteknum hugmyndum um karlmennsku og kynin tjái kyn sitt á dæmigerðan hátt. Um leið er spurningamerki sett við þá sem upplifa og tjá kyn sitt á annan hátt.

Minnihlutaálag er nokkuð sem hinsegin fólk upplifir og hefur neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu þeirra. Minnihlutaálag er afleiðing þess að geta hvar og hvenær sem er orðið fyrir fordómum, þöggun, mismunun og neikvæðri orðræðu og jafnvel ofbeldi sökum hinseginleika síns. Þetta er nokkuð sem fylgir samfélagsgerðinni sem við búum við, þ.e. gagnkynhneigðum sís-viðmiðum. Með öðrum orðum þá veit hinsegin fólk aldrei hvaða viðbrögðum það getur átt von á vegna hinseginleika síns. Þetta getur orðið til þess að vantraust og óöryggi sé til staðar hjá einhverju hinsegin fólki, óháð því hvort það eigi rétt á sér í einstaka tilvikum.“

Eins og komið hefur fram, í umræðunni um þessa menntastefnu, er mikill kvíði og vanlíðan í börnum og ungu fólki sem nýtir sér menntakerfið. Vanlíðan getur m.a. sprottið upp úr því að finnast að maður eigi ekki heima í því umhverfi sem mestum hluta ævinnar er eytt í. Að bjóða upp á menntakerfi fyrir okkur öll án mismununar ætti því að vera í forgangi og eitt skref í þá átt er að passa upp á að nota orðalag sem nær yfir okkur öll.

Að lokum ætla ég að fá að vitna í annan pistil Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors emerítus:

„Mörgum finnst þessi orð hljóma undarlega og jafnvel vera kjánaleg. Það er alveg eðlilegt — ný orð verka yfirleitt framandi á okkur. Það þarf að venjast þeim, og það tekur tíma. Mörg orð sem við notum athugasemdalaust og umhugsunarlaust á hverjum degi þóttu undarleg þegar þau komu fyrst fram. Einn helsti nýyrðasmiður landsins á síðustu öld, Halldór Halldórsson prófessor, sagði að það þyrfti að segja nýtt orð 60 sinnum til að venjast því. Prófið það!“