153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

staða sjúkrahússins á Akureyri.

[15:15]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra getur ekki endalaust vísað bara í það sem hefur verið gert og þó að það sé góðra gjalda vert að hér sé vísað í uppbyggingu á tengigangi þá er það fjárfesting en hér erum við að glíma við rekstur. Þó að staðan hafi skánað þá getur það ekki verið gott start, að byrja með of lítið fé upp á 250 millj. kr. ofan á allt annað.

Í fyrradag var Svanur Sigurbjörnsson lyflæknir í viðtali á RÚV og í morgun aftur, held ég, og sagði að þegar nýr meðferðarkjarni Landspítala verði tekinn í notkun muni áfram vanta rými fyrir sjúklinga. Fjöldi sjúkrarýma er töluvert minni en í nágrannaríkjunum og að hans sögn mun nýi spítalinn ekki duga til.

Nú eru þrjár vikur í framlagningu nýrrar fjármálaáætlunar og ég gef mér að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi átt alvarleg, raunar mjög alvarleg samtöl við fjármálaráðherra um stöðuna sem hann ber ábyrgð á. Hvers megum við vænta í nýrri fjármálaáætlun? (Forseti hringir.) Getum við gert ráð fyrir því að þessir hlutir muni batna með henni?