153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

rafræn ökuskírteini.

[15:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og ég er sammála. Ég vona heitt og innilega að það komi svör sem fyrst. Ég spyr mig líka að því hvort það hefði ekki verið nær að auglýsa þetta, það þarf eiginlega að auglýsa og láta fólk vita. Það virðist eins og að Íslendingar hafi þá tröllatrú að þegar eitthvað er komið rafrænt í símann hjá þeim þá gildi það bara alls staðar í heiminum. En fólk er að verða fyrir tjóni vegna þess að það fer erlendis, tekur bílaleigubíl, borgar bílinn, kemur svo á staðinn og er bara með rafrænt ökuskírteini og þá fær það ekki bílinn og situr uppi með kostnaðinn. Þetta getur eyðilagt heilu fríin fyrir fólki þannig að ég vona heitt og innilega að verði tekið á þessu.

Svo langar mig bara í stuttu máli að spyrja hvort hæstv. ráðherra sé ekki sammála mér með óborganlegu línuna sem á að fara að gera, sem virðist stefna ekki tugi milljarða fram úr kostnaði heldur hundruð milljarða: Væri ekki ódýrara að halda gamla góða strætókerfinu og hafa bara ókeypis í strætó? Það myndi ekki kosta nema brot, 1% eða 5% af þessum kostnaði.