153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

skaðaminnkandi úrræði og afglæpavæðing neysluskammta.

[15:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að taka hér upp umræðu um fíkni- og geðsjúkdóma sem allt of oft fer saman og tengist kannski þessu tiltekna máli sem hv. þingmaður vísaði í. Ég ætla að byrja á því að taka undir með hv. þingmanni. Opin og fordómalaus umræða er algjör lykill að því að geðsjúkdómar eða fíknisjúkdómar valdi ekki jaðarsetningu einstaklinga. Mér finnst margt jákvætt hafa verið að gerast á skömmum tíma þegar kemur að því og þegar kemur að skaðaminnkandi úrræðum og viðhaldsmeðferð. Mér finnst augu vera að opnast, það er rétt.

Við erum með stóran breiðan hóp, notendamiðaðan hóp, í vinnu í heilbrigðisráðuneytinu sem er að skoða þessi mál og þetta tiltekna mál, sem við höfum oft skírskotað til sem afglæpavæðingar og hefur komið hingað inn í þingið fyrr. Nú er fíknigeðdeild í samstarfi við Vog þegar kemur að viðhaldsmeðferðum. Það er hægt að fara í viðhaldsmeðferð bæði á geðdeild og á Vogi þar sem tiltekin lyf eru notuð, suboxone og methadone. Þau henta ekki öllum. Nokkrar þjóðir hafa farið í að ávísa og vera með neyslurými þar sem þú getur komið og fengið morfínskyld lyf og það er eitthvað sem við erum nú þegar með til skoðunar. Af því að ég fékk þessa fyrirspurn, og það er hárrétt sem þingmaðurinn kom inn á varðandi hvernig þetta er í dag, þá geta læknar auðvitað í ákveðnum tilvikum ávísað slíkum lyfjum.