154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það mun ekki standa á okkur í Viðreisn að taka breiða umræðu um þetta mál. Eins og ég sagði áðan er þetta einn mikilvægasti milliríkjasamningur sem við Íslendingar höfum gert og að sjálfsögðu þorum við að standa með samningnum og klára það sem við skuldbundum okkur til að samþykkja á sínum tíma. Þetta snýst um réttindi fólks, réttindi borgaranna og líka réttindi fyrirtækja. Ég vona svo innilega að þessi breiða umræða sem við vonandi fáum í gegnum þessa skýrslu, þetta milliskref, sé ekki bara ætluð til heimabrúks innan Sjálfstæðisflokksins, bara þannig að það sé sagt. Ég ætla að fá að leyfa mér að trúa því einlæglega að hæstv. utanríkisráðherra sé að koma með málið hingað til þess að ýta því áfram, til þess að tryggja réttindi okkar Íslendinga samkvæmt EES-samningnum og standa með honum. Ég vona að þetta sé gert af einlægni en ekki bara út af innanbúðarerfiðleikum og innanflokkserjum innan Sjálfstæðisflokksins. Það vekur vissulega miklar spurningar (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin hafi ekki getað klárað þetta mál á síðasta vori og þess vegna spyr ég aftur: Sér ráðherra fram á að það sé þingmeirihluti fyrir þessu máli? (Forseti hringir.) Það mun ekki standa á Viðreisn hvað það varðar að greiða atkvæði með því en sér hann fram á að ríkisstjórnarflokkarnir allir geri það?