154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir hans ágætu ræðu. Það vaknaði spurning þarna undir lokin þegar hann fór að vitna í ágætan Davíð Þór Björgvinsson. Er það sem sagt svo að hv. þingmaður sé því fylgjandi í fyrsta lagi að EES-reglur eða ESB-reglur gangi framar íslenskri löggjöf? Í öðru lagi talar hann mikið um ESB. Staðreyndin er nú sú að þrátt fyrir að við séum að verða komin með annan fótinn þangað inn þá erum við ekki enn þá gengin í Evrópusambandið, ekki alveg enn þá. Hv. þm. Logi Einarsson mærir hér EES-samninginn, sem er grundvallarsamningur fyrir okkur hvað lýtur að fjórfrelsi og aðgangi okkar að innri markaði, 520 milljóna manna innri markaði. Telur hann þá að samningurinn, EES-samningurinn sem slíkur, sé ekki nóg? Er hv. þingmaður að segja að við þurfum að ganga í Evrópusambandið? Og er hv. þingmaður hins vegar að segja að við eigum að láta bókun 35, í rauninni eins og Davíð Þór Björgvinsson segir í sínu ágæta innleggi, ganga framar íslenskri löggjöf?