154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:42]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Markmiðið með samningnum, eins og kom fram hjá mér og, að ég held, hæstv. ráðherra er að það sé einsleitni á svæðinu, að það gildi sömu reglur um alla þessa hluti sem samningurinn nær til, reyndar að undanskildum landbúnaði, sjávarútvegi og fleira þegar samningur var gerður þannig að hann tekur ekki til þess. Við skuldbindum okkur til þess að tryggja þessa einsleitni þannig að ef innleiddar reglur stangast á við lög íslensk þá ganga þær framar nema Alþingi ákveði annað. Það er grundvallaratriðið. Ég ætla einfaldlega ekki að láta teyma mig út í umræðu um hvort við eigum að ganga lengra heldur en þetta. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það væri ýmislegt sem væri áhugavert fyrir okkur varðandi það að fá fulla aðild. Því hef ég ekki breytt. En ég held að í augnablikinu sé bara ekki vanþörf á því að verja þennan samning vegna þess að hann er mjög dýrmætur. Þá skal ég gjarnan halda mig við það sem við erum að ræða hér, sem er EES-samningurinn. Ég tel það afar skynsamlegt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að það væri betra með þessari einföldu viðbót að tryggja þau markmið sem var skilningur alla í upphafi að væri verið að tryggja en hefur ekki virst nægja frekar en að láta reyna á einhverja dómstólaleið. Þannig að já, í stuttu máli er þetta nú svarið.