154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[18:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég hef einmitt áhyggjur af þessari nálgun, það virðist vera annaðhvort eða. Ef það er framar í röðinni hvað lausn varðar ef koma upp flókin mál að ganga úr samstarfinu heldur en að nýta sér þær heimildir sem eru beinlínis skrifaðar inn í það, í þessu tilviki 102. gr., þá er hætt við að umræðan verði býsna snúin við að eiga. En hv. þingmaður metur hvort hún hefur tíma til að fara frekar út í þessar vangaveltur.

Mig langar í seinna andsvari að spyrja út í hvaða verklag hv. þingmaður sér fyrir sér varðandi meðhöndlun utanríkismálanefndar á þessu máli, þessari skýrslu. Skilur hv. formaður utanríkismálanefndar það þannig að hæstv. ráðherra ætli sér ekki að leggja málið fram sem hann boðaði hér og er á þingmálaskrá fyrr en nefndin hefur afgreitt álit sitt vegna skýrslunnar eða er skilningur hv. þingmanns á að ráðherrann leggi fram þingmálið eins og hann hefur boðað áður en formlegri afgreiðslu utanríkismálanefndar er lokið?