135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

jarðgöng á Miðausturlandi.

[15:29]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður fjallaði um, það er mikilvægt að styrkja innviði sveitarfélaganna eins og gert hefur verið. Það hefur ríkisstjórnin heldur betur verið að gera, m.a. með mótvægisaðgerðum á sviði samgöngumála sem hafa verið kynntar og voru kynntar 10. júlí síðastliðinn.

Það nægir að fara í næsta nágrenni við heimasveit hv. þingmanns, Hófaskarðsleiðina niður á Raufarhöfn, að klára leiðina niður á Þórshöfn o.fl. Vonandi fer Dettifossvegur í útboð innan nokkurra vikna. Hæstv. ríkisstjórn hefur því heldur betur gefið í hvað samgöngumál varðar, eins og hv. þingmaður fjallaði um, til að styrkja innviði sveitarfélaganna sem hér er verið að ræða um og víða um landið. Bara af því ég horfi á hv. þingmann og veit hvaða flokki hún tilheyrir og er í fallegri grænni skyrtu, þá vil ég líka nefna veginn um Öxi, ákvörðun um að fara í þá framkvæmd sem hefur mælst mjög vel fyrir á mörgum stöðum.

En ég verð að segja alveg eins og er að ég hef verið tuskaður svolítið til af fulltrúum ákveðins flokks í ákveðnu sveitarfélagi en ég leiði það hjá mér vegna þess að ég oft litið á það sem meðmæli þegar ég er skammaður af þeim flokki.