135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:29]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Nokkur orð í lok þessarar umræðu, reikna ég með, sem hefur verið áhugaverð. Fram hafa komið efasemdir gagnvart frumvarpinu og meirihlutaáliti hv. allsherjarnefndar. Sú andstaða hefur komið frá talsmanni Frjálslynda flokksins, talsmanni Vinstri grænna og tveimur fulltrúum úr mínum ágæta þingflokki Samfylkingunni — einhvern tímann hefði það verið kallað „strange bedfellows“, en allt hefur þetta verið flutt af þeirra hálfu á málefnalegan hátt og geri ég engar athugasemdir við þann málflutning að öðru leyti en því að ég lýsi því yfir að ég er honum ekki sammála.

Það frumvarp sem hér er til umræðu er angi af samkomulagi sem gert var í haust milli flokkanna, milli formanna þingflokkanna, að fráskildum Vinstri grænum, um breytingar á þingsköpum sem í aðalatriðum voru samþykktar fyrir áramótin. Nú er verið að bæta aðeins við með því að flytja frumvarp um heimild til að auka aðstoð til þingflokkanna og þá sérstaklega til formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Ég hef fyrir mitt leyti gert athugasemdir við innihald frumvarps um aðstoðarmenn til þingflokkanna og haft mínar ástæður til að efast um að það sé rétt aðferð til að auka stuðning við þingstarfið sem vissulega er þarft að gera. Það er fullkomlega réttmætt að efla aðstoðarþjónustu til handa alþingismönnum og Alþingi.

Ég leyfi mér að halda því fram að ekki sé skynsamlegt, úr því að verið er að veita meira fjármagn til þessara aðila, að það sé gert með þeim hætti að úthluta aðstoðarmönnum án þess að það hafi verið ígrundað hvers konar verkefnum slíkir aðstoðarmenn eigi að sinna. Betur hefði farið á því að fara aðrar leiðir og tek ég í því sambandi að mörgu leyti undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem reifaði þá hugmynd að þessum peningum væri betur varið með því að veita þeim til flokkanna sem slíkra sem síðan nýttu þá í þágu heildarinnar. En það er annað mál og ekki tími til að fara út í þær vangaveltur þar sem nú er komið að lokastigi afgreiðslunnar á frumvarpinu sem hér liggur fyrir.

Ég kveð mér aðallega hljóðs til að lýsa skoðunum mínum á þeim fullyrðingum sem hér hafa komið fram að því er það varðar að brotið sé á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar með frumvarpinu. Ég er ekki sammála þeirri skoðun.

Í breytingartillögum hv. meiri hluta allsherjarnefndar, sem er reyndar líka efnislega í frumvarpinu sjálfu, segir að alþingismanni sé heimilt að ráða sér aðstoðarmann og skuli greiðslur til hans fara eftir nánari reglum o.s.frv. Það er aðalreglan, meginreglan, að heimilt sé að ráða aðstoðarmann til þingmanna. Síðan er gerð undantekning eða gefin önnur heimild undir þessari meginreglu um að binda megi hana við tiltekin kjördæmi eða tiltekna stöðu alþingismanns. Það eru frávik frá aðalreglunni. Í nefndaráliti, bæði með frumvarpinu sjálfu og frá meiri hluta hv. allsherjarnefndar, segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur að sterk rök hnígi í þá átt að útvíkka þetta fyrirkomulag frekar, m.a. þannig að aukin aðstoð nái til allra þingmanna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að forsætisnefnd hugi þegar að breytingum í þá veru, svo sem með tilliti til fjárlagavinnu fyrir næsta ár.“

Með öðrum orðum er alveg ljóst að hér er verið að leggja til almenna heimild til þess að aðstoðarmenn séu ráðnir. Síðan er gefin sérstök heimild til að byrja á ákveðnum kjördæmum með vísan til þess sem formaður allsherjarnefndar sagði áðan, að málefnaleg rök væru til þess. Þetta þarf að haldast í hendur við ákvarðanir um fjárlög á hverju ári og er ætlunin að útvíkka þetta kerfi í framtíðinni þannig að öllum sé gert jafnhátt undir höfði.

Ég hef mínar efasemdir um, eins og ég gat um áðan, að þetta sé endilega rétt aðferð en hér er hún lögð fram að mati þeirra sem um þetta hafa fjallað og með samþykki allra þingflokka nema eins. Víðtæk samstaða hefur verið um þessar tillögur til að breyta þingsköpum og bæta störf þingsins og ég tek undir það. Í þeirri vissu að hér verði aftur gerð bragarbót á — ég er raunar sannfærður um að þegar þessi tilraun með aðstoðarmennina hefur farið fram í tiltekinn tíma verði því hugsanlega breytt aftur í þá átt sem mér væri frekar að skapi en það er framtíðarspil. Um þessa málsmeðferð hefur sem sagt ríkt í öllum aðalatriðum gott samkomulag. Í trausti þess og undir því merki að þingflokkarnir, og þar þá meðal minn þingflokkur, hafa staðið að samkomulaginu hef ég skrifað undir álit meirihlutanefndar og kem til með að greiða götu frumvarpsins allt til enda.