136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[13:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Núna kemur þing saman í fyrsta sinn eftir að ný ríkisstjórn, minnihlutaríkisstjórn, tók við völdum. Á síðustu árum hefur verið hér þingforseti sem hefur stutt þingið og eflt það, aukið vægi og virðingu þingsins. Um það hafa flestir verið sammála, m.a. þingflokksformaður Framsóknar.

Þegar hæstv. forseti var kjörinn á sínum tíma stjórnaði hæstv. núverandi forsætisráðherra þeim fundi. Forseti fékk 54 greidd atkvæði af 58, fjórir greiddu ekki atkvæði. Í 20 ár höfum við hlustað á m.a. formann Vinstri grænna tala um að þingforseti ætti að koma frá minni hluta, frá stjórnarandstöðu, en þegar á hólminn er komið verða beinin að brjóski. Það er miður. Það væri sök sér ef um meirihlutastjórn væri að ræða en hér erum við að tala um minnihlutastjórn og þess vegna er eðlilegt að maður spyrji: Hvar er virðing þingsins? Hvar er ríkisstjórnin og hver er staða hennar gagnvart þinginu? Að mínu mati er þetta mjög sérstök uppákoma, að fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar, minnihlutaríkisstjórnar, er að koma (Forseti hringir.) rétt kjörnum forseta, sem hefur styrkt þingið og eflt á síðustu árum, úr embætti. Þetta er allt í boði Framsóknar.