136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[13:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við skulum hafa það á hreinu að breyting á forsetakjöri á Alþingi Íslendinga hefur ekkert með persónu Sturlu Böðvarssonar að gera og ég vil fyrir hönd framsóknarmanna á þingi þakka honum ágætlega unnin störf síðustu árin hér á Alþingi. Hins vegar er það svo að ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum og meiri hluti þingmanna hefur ákveðið að skipta um forseta og lagt fram bréf þess efnis. Ég endurtek enn og aftur: Það hefur ekkert að gera með persónu Sturlu Böðvarssonar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með embætti forseta Alþingis síðustu 18 árin. Embætti forseta Alþingis er ekki séreign einhverra stjórnmálaflokka og ég bið því sjálfstæðismenn á þingi að virða vilja meiri hluta alþingismanna sem vilja skipta um yfirstjórn á þinginu. Við þurfum að koma mörgum brýnum málum til leiðar. Það ætlar núverandi ríkisstjórn sér að gera (Forseti hringir.) og við framsóknarmenn munum styðja hana í öllum góðum málum.